Marbrotinn dagur með messu, bókaflutningi og Skálholtsfélaginu
- Skálholtsbiskup
- Jun 21
- 1 min read

All stór dagur er á morgun, sunnudaginn 22. júní, í Skálholti. Hjartað slær með hinum helga stað í samfélagi sem er engu líkt. Þema dagsins er "Kölluð til kærleika Guðs". Messan er kl. 11, aðalfundur Skálholtsfélagsins hins nýja er kl. 15 í Gestastofunni og svo verða bækurnar fluttar úr kirkjuturninum kl. 16.30 yfir í Gestastofuna.
Aðalfundur Skálholtsfélagsins minnir okkur á hvað félagið hefur verið mikill aflvaki allra stórra verka með verðugum vinum staðarins og sérstaklega þó kirkjunnar sjálfrar.
Við vonumst eftir nógu mörgum sjálfboðaliðum til að þetta langþráða verk gangi vel að bera bókakassana yfir. Margar hendur vinna létt verk saman. Einn burðarásinn verður björgunarsveitarfólkið okkar. Það má minna á að bókasafnið hefur beðið flutnings síðan 1967 og verður núna Bókhlaða Skálholts og vígð á Skálholtshátíð 20. júlí.

Messan kl. 11 verður sérstök á þann hátt að við vígjum nýja hljóðnema í stað þeirra sem ískruðu stundum og einnig nýja skjái sem koma í stað númeratöflunnar. Þar birtast sálmanúmer og ýmis ný svör, signing og bænir, til að lesa saman og allir messuliðir verða á skjánum til mikilla þæginda. Það verður gaman að sjá viðbrigðin þótt þetta sé ekki orðið alveg fullkomið. Mjór er mikils vísir.
Þykir rétt að vara fólk við að sumt í messunni verður eftir drögum að nýrri handbók og svo gæti guðspjallið orðið áminning um að gleyma ekki Lazarusi, hinum fátæka, sárþjáða og hungraða hér og úti í heimi.
Comments