top of page
20220620_104749.jpg

Höfuðstaður Íslands

Skálholt var höfuðstaður Íslands í um 750 ár, miðstöð kirkjunnar og einn þéttbýlasti staður landsins. Saga staðarins er löng og samtvinnuð sögu kristni á Íslandi.

 

Fyrsti biskup Íslands, Ísleifur Gissurarson sat í Skálholti. Gissur sonur hans tók við biskupsdómi eftir föður sinn, byggði dómkirkju á staðnum og gaf kirkjunni jörðina með þeim orðum að í Skálholti skyldi vera kirkja meðan kristni héldist í landinu.

 

Á miðöldum óx Skálholtsstaður mjög í andlegu og veraldlegu tilliti og varð snemma einn fjölmennasti staður landsins. Á staðnum var skóli og um tíma prentsmiðja. Mikill búrekstur var í Skálholti og allur húsakostur í samræmi við það.

 

Árið 1630 brann staðurinn allur og margt menningarsögulegra verðmæta glataðist. Öll hús staðarins, nema dómkirkjan, hrundu í jarðskjálftanum 1784 og biskupsstóllinn var fluttur til Reykjavíkur í kjölfarið. Árið 1802 var Brynjólfskirkja rifin og minni kirkja reist í staðinn. Um miðja 20. öld hófst svo endurreisn Skálholtsstaðar. 

Endurreisn Skálholtsstaðar á 20. öld
Eftir að biskupsstóllinn fluttist frá Skálholti varð Skálholt venjulegur kirkju-staður í sveit. Vegna mikilvægis staðarins í sögu þjóðarinnar var snemma á 20.öld farið að ræða um endurreisn hans. Segja má að fyrsta skref endurreisnarinnar hafi verið tekið með ákvörðun Alþingis um embætti vígslubiskups í Skálholtsbiskupsdæmi 1909.

 

Endurreisn staðarins var oft rædd á Alþingi og á kirkjuþingi eftir að það var stofnað. Prestafélag Suðurlands og Skálholtsfélagið, sem stofnað var undir forystu dr. Sigurbjörns Einarssonar (1911-2008) árið 1948, beittu sér einnig fyrir endurreisn staðarins. Ríkisstjórnin stóð að veglegri hátíð í Skálholti í samvinnuvið kirkjuna 1956 þegar 900 ár voru liðin frá vígslu fyrsta biskupsins. Loks samþykkti Alþingi að reisa nýja dómkirkju í Skálholti.

 

Mikil samstaða var á Alþingi og innan kirkjunnar um endurreisn Skálholts. Tvennt vakti fyrir mönnum. Annars vegar voru þeir sem vildu að endurreisnin styrkti stöðu kirkjunnar meðal þjóðarinnar. Hins vegar voru þeir sem litu á endurreisnina sem þátt í því að endurreisa þjóðlega vitund Íslendinga.

bottom of page