
Skálholtshátíð
Skálholtshátíð er haldin hátíðleg árlega en hátíðin var fyrst haldin árið 1949 Hátíðin er ávallt haldin helgina sem er næst Þorláksmessu að sumri, sem er 20. júlí. Þá er boðið til veislu í Skálholtskirkju með helgiathöfnum, tíðarsöng, tónleikum og fróðleik. Pílagrímar ganga til hátíðarmessu m.a. frá Þingvöllum og Reynivöllum.
Dagskrá er vönduð og menningarleg en henni er stýrt af Vígslubiskupi í Skálholti.
Skálholtshátíð verður haldin helgina 20 - 21. júlí 2024
Dagskrá Skálholtshátíðar 2024
LAUGARDAGUR 20. JÚLÍ, ÞORLÁKSMESSA Á SUMAR
Kl. 9.00. Útimessa við Þorlákssæti. Gengið er frá höfuðdyrum kirkjunnar. Sr. Kristján Björnsson leiðir messuna og setur Skálholtshátíð í sæti Þorláks helga Þórhallssonar.
Kl. 10 - 12. Málþing um frið og von fyrir botni Miðjarðarhafsins. Málþing á vegum Stofnunar dr. Sigurbjörns Einarssonar öllum opið.
Fyrirlesarar: Dr. Munther Isaac, prestur lúthersku kirkjunnar í Betlehem, og dr. Magnús Þorkell Bernharðsson, prófessor við Williams háskóla í Massachusetts í Bandaríkjunum, auk viðbragða frá Ólöfu Ragnarsdóttur, fréttamanni RÚV. Vegna óviðráðanlegra aðstæðna í Palestínu verður erindi dr. Munther í fjarfundi og með pallborði hans. Sá hluti er á ensku.
Bogi Ágústsson, formaður Stofnunar dr. Sigurbjörns Einarssonar setur málþingið. Málstofustjóri er sr. Matthildur Bjarnadóttir.
Kl. 12.00. Hádegisverður á Hvönn.
Kl. 12.00. Fornleifaskóli barnanna. Eva Bryndís Ágústdóttir fornleifafræðingur kynnir börnunum ýmsar fornleifar og gripi sem hafa fundist í Skálholti. Mæting við kirkjuna.
Kl. 13.00 - 14.20. Málstofa til minningar um dr. Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands á vegum Stofnunar dr. Sigurbjörns Einarssonar.
Dr. Gunnlaugur A. Jónsson flytur erindi um Karl biskup sem hann nefnir: „Boðberi trúar í lífi og starfi.“
Sunginn verður sálmur eftir Karl biskup Sigurbjörnsson.
Málstofustjóri: Sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup.
Kl. 16.00. Hátíðartónleikar á Skálholtshátíðar 2024 á 75 ára afmæli Skálholtshátíðar. Flutt verður fjölbreytt og hátíðleg tónlist og er stjórnandi þeirra Jón Bjarnason, organisti. Hápunkturinn á hátíðartónleikunum er Kantata eftir Johann Sebastian Bach, Vergnügte Ruh, beliebte Seelenlust, BWV 170, sólókantata sem Sigríður Ósk Kristjánsdóttir flytur ásamt orgeli, óbói og strengjasveit. Auk þess verður fluttur orgelkonsert eftir Georg Friedrich Handel og Skálholtskórinn flytur verk eftir Antonio Lotti.
Auk Sigríðar Óskar Kristjánsdóttur, eru helstu flytjendur Páll Palomares konsertmeistari, Matthías Birgir Nardeau óbóleikari og Skálholtskórinn.
Kl. 18.00. Tíðargjörð í Skálholtsdómkirkju.
SUNNUDAGUR 21. JÚLÍ, SKÁLHOLTSHÁTÍÐ Í 75 ÁR
ÁVÖXTUR FRIÐAR ER OKKAR LJÓS
Kl. 9.00. Tíðargjörð í Skálholtsdómkirkju.
Kl. 11.00. Orgeltónleikar Jóns Bjarnasonar, organista. Flutt verða verk eftir Johann Sebastian Bach á orgelið í Skálholtsdómkirkju.
Kl. 12.00. Fornleifaskóli barnanna. Eva Bryndís Ágústdóttir fornleifafræðingur kynnir börnunum ýmsar fornleifar og gripi sem hafa fundist í Skálholti. Mæting við kirkjuna.
Kl. 14.00. Hátíðarmessa í Skálholtsdómkirkju. Skálholtshátíð 1949 – 2024. Minnisversið er: „Hegðið ykkur því eins og börn ljóssins. Því að ávöxtur ljóssins er einskær góðvild, réttlæti og sannleikur.“ (Ef 5.8b-9). Gullna reglan og þrönga hliðið. (Matt. 7.12-14). Skálholtskórinn syngur. Stjórnandi og organisti er Jón Bjarnason. Trompetleikarar eru Jóhann I. Stefánsson og Vilhjálmur Ingi Sigurðarson. Sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup, prédikar og þjónar fyrir altari ásamt sr. Guðrúnu Karls Helgudóttur, sr. Axel Á. Njarðvík, sóknarpresti, Bergþóru Ragnarsdóttur, djákna, sr. Örnu Grétarsdóttur, sr. Guðlaugu Helgu Guðlaugsdóttur og frú Agnesi M. Sigurðardóttur, biskupi Íslands. Lesarar eru Erlendur Hjaltason, formaður Skálholtsfélagsins hins nýja, og Bogi Ágústsson, formaður Stofnunar dr. Sigurbjörns Einarssonar.
Kl. 15.00. Kirkjukaffi á Hvönn í boði Skálholtsstaðar.
Kl. 16.00. Hátíðardagskrá í Skálholtsdómkirkju.
„Ávöxtur friðar er okkar ljós.“
Hátíðarerindið flytur forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson.
Gísli Stefánsson, bariton, syngur einsöng og Skálholtskórinn syngur undir stjórn Jóns Bjarnasonar, organista.
Flutt verður stutt ágrip af sögu Skálholtshátíða í 75 ár.
Frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, flytur ávarp.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra flytur ávarp.
Vígslubiskup stýrir dagskrá og flytur fréttir.
Kl. 18.00. Te Deum í Skálholtsdómkirkju
Saga Skálholtshátíðar
Skálholtshátíð er jafnan haldin sem næst Þorláksmessu á sumar, 20. júlí. Á öldum áður var það mikill helgidagur allt frá því Þorlákur Þórhallsson var lýstur helgur maður á Alþingi þann dag árið 1198. Þá var oft mikill mannfjöldi á staðnum. Svo lagðist þessi hátíð af um tíma. Með stofnun Skálholtsfélagsins 1948 var hátíðin endurreist og fyrst haldin í gömlu sóknarkirkjunni 1949.
Skálholtshátíð 1956
Á fyrstu Skálholtshátíðinni sem haldin var í Skálholti í júlí árið 1956 var þess minnst að 1000 ár voru liðin frá stofnun biskupsstóls í Skálholti. Talið var að þar hefðu komið 7 - 8 þúsund manns, þar á meðal kirkjuhöfðingjar víðsvegar að auk íslenskra. Tjaldað var um alla flöt, þar voru sölutjöld og hægt að kaupa sér bjúgu. Flutt voru leikrit sem unnið höfðu samkeppni um handrit að leikþáttum úr sögu Skálholts á 900 ára afmæli biskupsstólsins. Á pallinum eru samankomnir kirkjukórar víðsvegar að af landinu og var talið að kórinn hafi skipað um 350 manns, en Páll Ísólfsson Dómkirkjuorganisti stjórnaði kórnum.
Lagður var hornsteinn að nýrri kirkju í Skálholti, og er vafalaust hægt að segja að þarna hafi virðing Skálholtsstaðar hafist á ný.
Pílagrímagöngur í Skálholt á Skálholtshátíð sunnudaginn 21. júlí 2024.
Að venju verður gengin pílagrímaganga frá Þingvöllum til hátíðarinnar.
Gangan hefst laugardaginn 20. júlí með ferðabæn og fararblessun í Þingvallakirkju klukkan níu um morguninn. Þann dag er gengið að Neðra Apavatni. Sunnudagsmorguninn 21. júlí hefst gangan þar aftur klukkan 8.30 og verður gengið í Skálholt. Messa í Skálholtsdómkirkju hefst klukkan 13.30 og þurfa pílagrímar að vera komnir á staðinn vel fyrir þann tíma. Messan hefst með inngöngu þeirra sem þjóna að messunni og pílagrímanna í kjölfarið.
Pílagrímar sem ganga frá Bæ í Borgarfirði sameinast göngunni frá Þingvöllum að morgni laugardagsins, en pílagrímar sem gengið hafa frá Strandarkirkju í Selvogi nokkrar undan farnar helgar leggja af stað frá Skálholti kl 7 til að aka í Ólafsvallakirkju og ganga þaðan heim í Skálholt.
Göngurnar sameinast því á Skálholtshlaðinu og ganga til kirkjunnar kl. 13:30