top of page
Skálholtshátíð (9).jpg

Skálholtshátíð

Skálholtshátíð er haldin hátíðleg árlega en hátíðin var fyrst haldin árið 1954. Hátíðin er ávallt haldin helgina sem er næst Þorláksmessu að sumri, sem er 20. júlí. Þá er boðið til veislu í Skálholtskirkju með helgiathöfnum, tíðarsöng, tónleikum og fróðleik. Pílagrímar ganga til hátíðarmessu m.a. frá Þingvöllum og Reynivöllum. 

Dagskrá er vönduð og menningarleg en henni er stýrt af Vígslubiskupi í Skálholti. 

Skálholtshátíð verður haldin helgina 19 - 21. júlí 2024

Dagskrá Skálholtshátíðar

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, og forsetafrú Eliza Reid, sækja Skálholtshátíð sem verður helgina 20. - 21. júlí. Mun Guðni forseti flytja hátíðarerindi í hátíðardagskránni sem haldin er eftir hátíðarmessuna og kirkjukaffið. Aðal efni hátíðarinnar er að minnast þess að 75 ár eru frá fyrstu Skálholtshátíðinni sem Skálholtsfélagið stóð fyrir árið 1949. Sú hátíð var haldin í gömlu sóknarkirkjunni sem tekin var ofan nokkrum árum síðar til að hægt yrði að stunda einn mesta fornleifauppgröft sem gerður hafði verið á heimatorfu 

Skálholts. Sú kirkja hafði geymt alla þá merku gripi og innréttingar sem fóru að hluta til í núverandi dómkirkju. 

Á hátíðinni verður litið yfir sigra á vegi endurreisnar Skálholtsstaðar og þá um leið litið yfir farinn veg frá allra fyrstu Skálholtshátíðinni í eldri hefðinni allt frá því að bein Þorláks helga Þórhallssonar voru skrínlögð 20. júlí 1198 en 29. júní sama ár hafði Páll biskup Jónsson lýst hann helgan mann á Alþingi og áheit voru leyfð á Þorlák. 

Þorláksmessa á sumar, 20. júlí, var áður einn mesti helgidagur í Skálholtsstifti og hefur svo einnig verið að Skálholtshátíð er mesta hátíð í Skálholti ár hvert eftir stofnun Skálholtsfélagsins og endurreisn staðarins. 

Hátíðarmessa á Skálholtshátíð hefst kl. 14 og eftir kirkjukaffi verður hátíðardagskráin í Skálholtsdómkirkju kl. 16. Allir eru hjartanlega velkomnir og standa vonir til að kirkjunnar fólk og aðrir unnendur Skálholts komi og taki þátt í þessum mesta viðburði hins mikla helgi- og sögustaðar þjóðarinnar allrar.    

Saga Skálholtshátíðar

Skálholtshátíð er jafnan haldin sem næst Þorláksmessu á sumar, 20. júlí.  Á öldum áður var það mikill helgidagur allt frá því Þorlákur Þórhallsson var lýstur helgur maður á Alþingi þann dag árið 1198. Þá var oft mikill mannfjöldi á staðnum. Svo lagðist þessi hátíð af um tíma. Með stofnun Skálholtsfélagsins 1948 var hátíðin endurreist og fyrst haldin í gömlu sóknarkirkjunni 1949. 

Skálholtshátíð 1956

Á fyrstu Skálholtshátíðinni sem haldin var í Skálholti í júlí árið 1956 var þess minnst að 1000 ár voru liðin frá stofnun biskupsstóls í Skálholti. Talið var að þar hefðu komið 7 - 8 þúsund manns, þar á meðal kirkjuhöfðingjar víðsvegar að auk íslenskra.  Tjaldað var um alla flöt, þar voru sölutjöld og hægt að kaupa sér bjúgu. Flutt voru leikrit sem unnið höfðu samkeppni um handrit að leikþáttum úr sögu Skálholts á 900 ára afmæli biskupsstólsins.  Á pallinum eru samankomnir kirkjukórar víðsvegar að af landinu og var talið að kórinn hafi skipað um 350 manns, en Páll Ísólfsson Dómkirkjuorgaristi stjórnaði kórnum.

Lagur var hornsteinn að nýrri kirkju í Skálholti, og er vafalaust hægt að segja að þarna hafi virðing Skálholtsstaðar hafist á ný.

Pílagrímaganga

Pílagrímagöngur í Skálholt á Skálholtshátíð sunnudaginn 21. júlí 2024.

 

Að venju verður gengin pílagrímaganga frá Þingvöllum til hátíðarinnar. 

Gangan hefst laugardaginn 20. júlí með ferðabæn og fararblessun í Þingvallakirkju klukkan níu um morguninn. Þann dag er gengið að Neðra Apavatni. Sunnudagsmorguninn 21. júlí hefst gangan þar aftur klukkan 8.30 og verður gengið í Skálholt. Messa í Skálholtsdómkirkju hefst klukkan 13.30 og þurfa pílagrímar að vera komnir á staðinn vel fyrir þann tíma. Messan hefst með inngöngu þeirra sem þjóna að messunni og pílagrímanna í kjölfarið.

Pílagrímar sem ganga frá Bæ í Borgarfirði sameinast göngunni frá Þingvöllum að morgni laugardagsins, en pílagrímar sem gengið hafa frá Strandarkirkju í Selvogi nokkrar undan farnar helgar leggja af stað frá Skálholti kl 7 til að aka í Ólafsvallakirkju og ganga þaðan heim í Skálholt.

Göngurnar sameinast því á Skálholtshlaðinu og ganga til kirkjunnar kl. 13:30

bottom of page