Aðalfundur Skálholtsfélags hins nýja
- Herdís Friðriksdóttir
- Jun 22
- 3 min read
Updated: Jun 26
Aðalfundur Skálholtsfélags hins nýja fór fram í Skálholti þann 22. júní 2025.
Fundurinn hófst með hefðbundinni dagskrá, þar sem Erlendur Hjaltason tilnefndi Árna Gunnarsson fundarstjóra og gerði svo grein fyrir starfi liðins árs, ársreikningar voru kynntir og ákveðið var að félagsgjald næsta árs skyldi halda áfram óbreyttu, 8.000 kr. Áhersla var lögð á mikilvægi þess að efla Skálholt sem helgistað, menningar- og kyrrðarsetur, og vettvang fyrir samtal trúar og menningar.
Í skýrslu stjórnar kom fram að unnið hefur verið að margvíslegum verkefnum á síðustu misserum. Má þar nefna áframhaldandi skógræktarverkefni á Skálholtsjörðinni, en áður hefur verið unnið að skógræktarverkefni í samstarfi við Skógræktarfélag Íslands og Kolvið. Skógrækt á jörðinni verður endurmetin með það fyrir augum að skapa tekjur til Skálholtsstaðar með kolefniskvóta. Þá var minnst á lagfæringar í kirkjugarðinum til að bæta aðgengi, gerð jarðbrúar yfir Undapoll, endurbætur á kirkjunni sem lokið var nýverið, og flutning bókasafnsins í nýja Bókhlöðu svo það verði aðgengilegt almenningi og fræðimönnum í fyrsta sinn.
Erlendur lagði fram ársreikning til samþykktar og var hann samþykktur samhljóða.
Stjórn félagsins var óbreytt að stórum hluta. Hana skipa: Erlendur Hjaltason, formaður, ásamt Árna Gunnarssyni, Elínborgu Sturludóttur, Halldóru Þorvarðardóttur, Hreini Loftssyni, Katrínu Andrésdóttur. Kristín Ingólfsdóttir gaf ekki kost á sér en í hennar stað kemur Agnar Tómas Möller í stjórn. Hann var boðinn sérstaklega velkominn. Þá voru Hólmfríður Ingólfsdóttir og Guðrún Helga Bjarnardóttir endurkjörnar sem skoðunarmenn reikninga.
Á fundinum var einnig kynnt málþing um pílagrímagöngur, sem fer fram á Skálholtshátíð með áherslu á gönguleiðir sem tengja Skálholt og Þorlák helga við Niðarósdómkirkju. Að auki var greint frá áframhaldandi söfnun fyrir nýjan flygil í Skálholtsdómkirkju sem styrkja mun tónlistarstarf staðarins.
Sr. Kristján Björnsson vígslubiskup kynnti stöðu mála í Skálholti og fór m.a. yfir fyrirhugaða Sumartónleika í Skálholti sem fagna 50 ára afmæli í ár. Mikil dagskrá er framundan en tónleikarnir verða viku lengur en áður. Boðið verður upp á tvær kantötumessur í tengslum við tónleikahátíðina. Kristján fór einnig yfir dagskrá Skálholtshátíðar en sem áður verður mikil dagskrá, málþing, pílagrímagöngur, mikið helgihald, hátíðartónleikar og hátíðardagskrá. Hvatti hann fundargesti til að taka þátt í dagskránni. Kristján gerði einnig grein fyrir ýmsum framkvæmdum sem unnið er að á Skálholtsstað, en fasteignasvið Biskupsstofu leggur árlega til fé til viðhaldsverkefna. Skálholt er nú komið í 30% allra fasteigna sem Þjóðkirkjan á og því eðlilegt að við fáum 30% af því úthlutunarfé sem er til ráðstöfunar hjá Þjóðkirkjunni.
Skálholtsfélagið hið nýja stendur áfram vörð um menningararf Skálholts og styður við uppbyggingu og framtíðarsýn staðarins með órofa tryggð. Með þessum fundi var enn einu sinni staðfest mikilvægi samstarfs, samráðs og sameiginlegrar framtíðarsýnar fyrir þennan merka stað í íslenskri menningarsögu.
Á fundinum lagði Ólafur Egilsson fv sendiherra og félagsmaður í Skálholtsfélaginu hinu nýja fram svohljóðandi ályktun.:
Skálholtsfélag hið nýja hvetur til þess á aðalfundi 22 júní 2025 að horfið verði frá áformum um að hvorki vígslubiskup né sóknarprestur verði búsettur í Skálholti.
Þessi í stað – í kjölfar nýlegra umbóta á staðnum – lagt kapp á að efla veg Skálholts og alhliða kristilegt menningarlíf þar íslensku þjóðinni til farsældar og blessunar.
Þá vonast fundurinn til að gætt verði hófsemdar við endurskoðun handbókar þjóðkirkjunnar og við það miðað að góð sátt geti ríkt um leiðbeiningar hennar meðal kristinna landsmanna.
Var ályktunin samþykkt samhljóða.
Jafnframt lagði Ólafur Sigurðsson fv fréttamaður áherslu á að söfnuðurinn væri grunnur alls starfs innan kirkjunnar.
Hér má sjá kynningu Erlendar Hjaltasonar sem lagði fram á aðalfundinum:
Comments