top of page

Altaristaflan í Skálholtskirkju fær nýtt líf í útsaumuðu listaverki.

Það er hafið yfir allan vafa að altaristaflan í Skálholtskirkju eftir Nínu Tryggvadóttur er eitt af fegurstu listaverkum landsins. Mósaíkmyndin hefur um áratuga skeið hrifið kirkjugesti með sinni sterku nærveru og táknrænni mynd af Jesú, en verkið var unnið að beiðni Sigurbjörns Einarssonar biskups sem lagði sjálfur til að myndin yrði táknmynd frelsarans. Nína gerði nokkrar vatnslitamyndir og skissur áður en sú endanlega var valin – grunnmyndin að því sem við þekkjum svo vel í dag.


Nú hefur þessi áhrifamikla mynd öðlast nýja birtingarmynd, en Sigrún Elfa Reynisdóttir, góðvinur Skálholtsstaðar og félagi í Skálholtskórnum, lauk nýverið við að útsauma sjálfa altaristafluna eftir mósaíkverki Nínu. Það er sannkallað stórvirki að umbreyta svo margbrotinni mynd í saumað listaverk og tók verkið Sigrúnu tvö og hálft ár að ljúka, þó með mörgum góðum hléum. Í því ferli studdist hún við innblástur frá þremur áhrifavöldum: Guðjóni Gísla Kristinssyni saumameistara og listamanni á Sólheimum, Guðrúnu Hildi Rósenkjær hjá Annríki – Þjóðbúningar og skart, og Kristínu Dýrfjörð dósent.


Útsaumaða myndin var frumsýnd við hátíðlega stund í Skálholtsdómkirkju á sunnudaginn var, þegar hinn merki bókaflutningur úr kirkjuturninum í nýja Bókhlöðu fór fram. Myndin hefur þegar vakið mikla aðdáun og undrun þeirra sem hafa séð hana, enda er fegurð verks Nínu í senn heillandi og áhrifarík – hvort sem hún birtist í steinum eða saumi. Með þessu verki hefur Sigrún Elfa fært Skálholtskirkju nýja gersemi sem heiðrar bæði upprunalega list konunnar og þá handverkshefð sem ávallt hefur verið hluti af menningararfi staðarins.




Comments


bottom of page