Taflmaður, textíll og tveir prentstafir fundust við fornleifauppgröft í Skálholti í ár.
- Herdís Friðriksdóttir
- 13 minutes ago
- 1 min read
Vikuna 18. – 22. ágúst fór fram árleg vettvangskennsla í fornleifafræði í Skálholti á vegum Háskóla Íslands. Nemendur á fyrsta ári í fornleifafræði ásamt erlendum skiptinemum fengu þjálfun í aðferðum sem beitt er við fornleifarannsóknir; bæði við uppgröft og fornleifaskráningu.
Á svæðinu sem verið er að rannsaka þessa dagana hefur fundist mikið af gripum sem tengjast lífinu í Skálholti á 18. öld. Þar má helst nefna taflmann úr beini, viðarbrot úr innanstokksmunum, textíl, leðurbúta, hollenskar tóbakspípur, leirkersbrot úr potti, innfluttar eldtinnur sem notaðar hafa verið til þess að kveikja eld og skurn af hnetu.
Í ár fundust einnig tveir prentstafir sem eru taldir vera úr prentsmiðjunni sem flutt var í Skálholt frá Hólum í Hjaltadal og er að finna á korti frá seinni hluta 18. aldar. Sagt er frá prentsmiðjunni í Biskupasögum Jóns Halldórssonar í Hítardal, í umfjöllun um Þórð Þorláksson biskup: "... prenthús kostulega smíðað með súð og þili í hólf og gólf, stórum yfirgluggum á báðum hliðveggjum, vænum kakalofnum og bókbindarahúsi þar aptur af, svo ei voru önnur hús á stólnum þar prýðilegri." Prentsmiðjan sjálf hefur ekki verið rannsökuð en það mun verða gert á næstu árum.
Yfirumsjón með námskeiðinu og leyfishafi rannsóknarinnar er Dr. Angelos Parigoris fornleifafræðingur og kennari við Háskóla Íslands en auk hans sá Sólrún Inga Traustadóttir, fornleifafræðingur á Minjastofnun Íslands, um kennsluna.
Hér má sjá nokkrar myndir af fornleifauppgreftrinum auk þeirra gripa sem þar fundust.
Þar má meðal annars sjá prentstaf (óvíst er hvaða staf hann geymir), taflmann og bút út textíl.
Comments