top of page

Settu met í að flytja bókasafn!

Updated: 5 days ago


Í fréttatíma Ríkissjónvarpsins í gær var þessi skemmtilega frétt um flutning bókasafnsins úr kirkjuturni Skálholtsdómkirkju í nýja bókhlöðu í kjallara Gestastofunnar.


Hér er úrdráttur úr fréttinni. Sjá má fréttina með því að smella á hlekk neðst á síðunni.


Verðmætar bækur voru handlangaðar úr kirkjuturni Skálholtskirkju og í Gestastofu staðarins á dögunum. Leki var í turninum fyrir fimm árum og tímabært að koma ævafornum bókunum í öruggt skjól.

Málshátturinn margar hendur vinna létt verk sannaði sig þegar 77 sjálfboðaliðar selfluttu veglegt bókasafn úr turni Skálholtskirkju í Gestastofuna í næsta húsi. Leki var í turninum fyrir nokkrum árum og langþráð að bækurnar kæmust í framtíðarhúsnæði.

Verðmætt bókasafn Skálholtskirkju hefur verið geymt til bráðabirgða í turni kirkjunnar í sextíu ár. Leki varð í turninum fyrir fimm árum og minnstu munaði að bókasafnið yrði fyrir vatnstjóni. Bækurnar voru handlangaðar af hópi sjálfboðaliða í varanlegt húsnæði á dögunum.


„Þetta voru 250 eða 260 kassar sem var búið að pakka og það var slegið nýtt met í því að flytja bókasafn held ég. Menn voru allavegana að gantast með það að það met verði seint slegið. Það voru 44 mínútur sem það tók að flytja allt bókasafnið,“ segir Kristján Björnsson vígslubiskup í Skálholti.

Nú tekur við vinna við að raða bókunum í hillur á nýja safninu sem verður opnað á Skálholtshátíð 20. júlí.


„Ég er náttúrulega með minn góða vasahníf með mér til að opna bókakassana og ég held þetta sé bara akkúrat svona. Sálmar og hugvekjur séra Hallgríms, kvæði og rímur og svo koma þær hérna hver á fætur annarri,“ segir Kristján.


Elstu bækurnar í safninu eru frá 16. öld og koma úr safni Þorsteins Þorsteinssonar Dalasýslumanns. Safnið verður aðgengilegt fræðimönnum og hópum undir leiðsögn og Prentsögusetur Íslands kemur sér fyrir í sama húsi.


Er þetta bókasafn rosalega verðmætt?


„Sko það var talið með verðmætustu og merkustu bókasöfnum í einkaeigu á Íslandi svona fyrir miðja síðustu öld. Elstu bækurnar eru með því elsta sem er prentað á Íslandi og enn er til og er fáanlegt,“ segir Kristján.


Gæti maður ekki bara gleymt sér í marga daga eða vikur eða mánuði í öllum þessum bókum?


„Ég meina af hverju að vera að gera eitthvað annað,“ segir Kristján og hlær.


Hér má sjá fréttina í spilara RÚV:



Hér má sjá nokkrar myndir frá flutningi bókanna. Myndirnar eru teknar af Páli M. Skúlasyni og Herdísi Friðriksdóttur



Comments


bottom of page