Messa mæðra, Ragnheiðar, Brynjólfs, sumarkomu, Leo XIV og vertíðarloka
- Skálholtsbiskup
- 6 days ago
- 1 min read

Í raun er gríðarlega mikið um að vera í einni messu sem ætlað er að ná utanum allt þetta 11. maí kl. 11. En við tökum það í bitum. Réttlætið er og á dagskrá og mætti bæta við von um stríðslok þegar þetta er skrifað friðardaginn 9. maí.
Einn bitinn er Ragnheiðar-rölt með biskupi strax eftir messuna en eiðinn var hún látin sverja á kirkjutröpunum 11. maí 1661, skammt er í Barnahús þar sem hún bjó, Lokatshús þar sem Daði bjó og að minningarmarkinu við Þorláksbúð sem Skálholtsfélagið hið nýja lét gera til minningar um biskupsfjölskylduna.
Mæður eru hjartanlega velkomnar og njóta heiðurs dagsins þeirra. Við helgum þær og þökkum öll mæðranna börn. Þarna hugsum við sérstaklega um móðurina Ragnheiði sem svipt var barni sínu, Þórði, og dó líklega af harmi. Við hugsum sérstaklega til mæðra sem eru að missa börnin sín í verstu árásarstríðum okkar tíma. En móðirin er alltaf og helgast núna í messunni af móður Guðs á jörðu, Maríu mey. Myndin af styttu hennar tók biskup á ferð sinni um Jerúsalem með Krists-táknið í bakgrunni.
Við biðjum fyrir friði í Úkraínu þar sem vopnahléið hangir enn við ógnir harðúðugra stríðsherra. Við biðjum fyrir friði í Landinu helga þar sem þjóðarmorðið heldur áfram á Gaza og útrýming með illsku á því fólki sem er hætt að tala um von en á ekki aðra von en hinn frumstæða þráa að sitja og reyna að komast af í sínu eigin landi, Palestínu.
Comments