Boðun tær í bernsku trúar
- Herdís Friðriksdóttir
.png/v1/fill/w_320,h_320/file.jpg)
- 3 days ago
- 3 min read
Þúsund ár frá heimkomu Ísleifs Gissurarsonar
Skálholtshátíð 2026 verður helguð Ísleifi Gissurarsyni, sem varð fyrsti biskup í Skálholti fyrir 970 árum, vígður í Brimum og með erindi sem biskup til Íslands og Grænlands. Hátíðin verður helgina 18. – 19. júlí og eru drög að dagskrá aftast í þessari frétt. Yfirskrift hátíðarinnar verður „Boðun tær í bernsku trúar.“ Gefst þá einnig tækifæri til að skoða og fjalla um hlutverk Ísleifs hvort sem hann kallast trúboðsbiskup á föðurleifð sinni í Skálholti eða fyrsti stólsbiskup á Íslandi.
Ísleifur er talinn hafa komið heim um 1026, tvítugur að aldri, eftir að hafa verið einn allra fyrsti Íslendingurinn sem sótti sér æðri menntun í útlöndum. Líklega var það sama ár, 1026, sem Kolur trúboðsbiskup er kominn til Íslands. Það er þá annað tilefnið að minnast Kols því hann er fyrsti biskup sem jarðsettur er á Íslandi og er hann jarðaður í Skálholtskirkju. Þeir Ísleifur og Kolur eiga það sammerkt að hafa verið vel menntaðir og af áhrifamiklum ættum goða og tignarmanna sem skýrir betur en margt annað hversu miklu þeir komu til leiðar við mótun og þroska kristni á fyrstu áratugum hennar eftir að hún varð átrúnaður þjóðarinnar árið 1000.
„Boðun tær í bernsku trúar“ vísar til þess hvað kristni var ung sem átrúnaður í landinu öllu og til upphafs þess í Skálholti á ævi Gissurar hvíta. Vísar það einnig til þess að með „tærri boðun“ er átt við hreina postulega trú og lærdóm samkvæmt því sem best er vitað á hverjum tíma. Þá verður einnig hægt að fjalla um fyrsta skóla og menntun sem Ísleifur stóð fyrir á sínum biskupsárum. Enda hefur það verið frá byrjun ein helsta ábyrgð biskupa að mennta til prests og tryggja að vígðir þjónar annist vel um messugjörðina og sáluhjálp sóknarbarna sinna eftir þeirri von og vissu sem Jesús Kristur boðaði sjálfur og heilagur andi hefur haldið við og styrkt í hjörtum trúaðra um aldir. Með því að tala um bernsku trúar er einnig ætlunin að vísa til þess að við erum börn Guðs allt frá fyrstu mótun barnatrúar og svo síðar til trúarinnar sem verndar barnið í okkur sjálfum og börnin í samfélagi þeirra sem trúa.
Þorláksmessa á sumar er 20. júlí og er Skálholtshátíðin haldin ár hvert í nánd við þennan messudag Þorláks helga Þórhallssonar. Þann dag er þess minnst að hann var tekinn upp (dáinn 23. desember 1193) og lagður í skrín árið 1198 eftir þá samþykkt Alþingis á Þingvöllum að lýsa hann helgan mann. Hátíðin er haldin á ábyrgð vígslubiskupsins í Skálholti sem er sr. Kristján Björnsson.
Dagskráin er í mótun en hún er sett með útimessu við Þorlákssæti á laugardagsmorgni og sama dag verða hátíðartónleikar síðdegis og hugsanlega málþing um morguninn. Boðið verður uppá barnadagskrá, fornleifaskóla og örpílagrímagöngu barna. Pílagrímaganga verður til Skálholts í nokkra daga á undan að venju. Sunnudaginn 19. júlí verða orgeltónleikar fyrir hádegi en hátíðarmessan með fjölda þátttakenda er kl. 14 og hátíðardagskrá kl. 16. Á dagskránni eru flutt hátíðarerindi og ýmis tíðindi í bland við einstaka tónlist með Skálholtskórnum við orgel og flygil. Þá er öllum boðið í kirkjukaffi í boði Skálholtsstaðar milli messu og hátíðardagskrár. Oftast hefur verið gott veður á hátíðinni svo kaffið hefur verið í garðinum engu síður en inni á veitingastaðnum Hvönn í Skálholti. Hátíðin hefur jafnan verið fjölmenn og margt um gott kirkjunnar fólk og þau öll sem unna menningu landsins.








Comments