Sjötíu og fimm ár eru frá fyrstu Skálholtshátíðinni sem haldin var eftir að Skálholtsfélagið var stofnað 1948. Yfirskrift hátíðarinnar er sótt í þá skyldu kirkjunnar að flytja frið og styrkja ljós vonarinnar á erfiðum tímum en í ár eru allt of víða háð stríð í heiminum. Er það áhyggjuefni hversu miklar hörmungar það hefur leitt yfir marga, dauða, eyðileggingu og flótta. Boðskapur kirkjunnar krefst þess að við beytum okkur fyrir friði og réttlæti sem manneskjur. Það er ljósið sem við erum knúin til að bera inní líf annarra, líkt og segir í Efesusbréfinu: „Hegðið ykkur því eins og börn ljóssins. Því að ávöxtur ljóssins er einskær góðvild, réttlæti og sannleikur.“ Sunnudaginn 21. júlí eigum við saman hátíðarmessu kl. 14 og hátíðardagskrá á eftir í þeim fagra helgidómi sem Skálholtsdómkirkja er orðin eftir endurgerð. Hátíðarerindið flytur forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, og er það meðal allra síðustu erinda sem hann flytur í embætti forseta Íslands. Ávörp flytja menningar- og viðskiptaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, og frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.
Stofnun dr. Sigurbjörns Einarssonar stendur fyrir málþingi laugardaginn á Skálholtshátíð, kl. 10-12, en það er Þorláksmessa á sumar, 20. júlí. Dr. Munther Isaac, prestur lúthersku kirkjunnar í Betlehem, og dr. Magnús Þorkell Bernharðsson, prófessor við Williams háskóla í Massachusetts í Bandaríkjunum, flytja aðal erindi málþingsins og Ólöf Ragnarsdóttir, fréttamaður RUV, bregst við erindum þeirra. Vegna óviðráðanlegra aðstæðna í Palestínu verður fyrirlestur dr. Munther Isaac á fjarfundi.
Eftir hádegi, kl. 13, verður málstofa í kirkjunni helguð minningu um dr. Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, og verður hún bæði minning um líf hans og verk og umfjöllun um list og trúartákn. Dr. Gunnlaugur A. Jónsson flytur erindið Boðberi trúar í lífi og starfi og hjónin Einar Karl Haraldsson og Steinunn Jóhannesdóttir flytja erindi um nálægð hans og áhrif í listum innan kirkjunnar.
Hátíðartónleikar verða á Þorláksmessu á sumar, 20. júlí, kl. 16 og er stjórnandi þeirra Jón Bjarnason, organisti. Hápunkturinn á hátíðartónleikunum er Kantata eftir Johann Sebastian Bach,Vergnügte Ruh, beliebte Seelenlust, BWV 170, sólókantata sem Sigríður Ósk Kristjánsdóttir flytur ásamt orgeli, óbói og strengjasveit. Auk þess verður fluttur orgelkonsert eftir Georg Friedrich Handel og Skálholtskórinn flytur verk eftir Antonio Lotti. Auk Sigríðar Óskar Kristjánsdóttur, eru helstu flytjendur Páll Palomares konsertmeistari, Matthías Birgir Nardeau óbóleikari og Skálholtskórinn.
Stofnun Skálholtsfélagsins markar án efa upphaf endurreisnar Skálholts með biskupssetri og dómkirkju. Á þessum tímamótum þegar liðin eru 75 ár frá fyrstu Skálholtshátíðinni sem haldin var í gömlu sóknarkirkjunni 1949 verður flutt stutt ágrip af sögu Skálholtshátíðarinnar. Í ár verður greint frá uppbyggingu Gestastofunnar í Skálholti, endurreisn Bókhlöðu Skálholts og Prentsöguseturs Íslands, stofu Sigurbjörns Einarssonar og merkingu Þorláksleiðar.
Öll dagskrá Skálholtshátíðar er öllum opin án endurgjalds enda hafa allir þættir hennar þegar verið kostaðir. Hefst hún með útimessu við Þorlákssæti kl. 9 árdegis á Þorláksmessunni og verður gengið saman þangað af kirkjutröppunum. Sungin er tíðargjörð í kirkjunni kl. 9 á morgnanna, nema þegar útimessan er, og kl. 18. Einnig föstudaginn 19. júlí. Hópur pílagríma gengur til messu og hefst messan með móttöku þeirra. Pílagrímagangan er að þessu sinni allar götur frá Reynivöllum í Kjós og hefst ganga hvers dags kl. 9, frá Reynivöllum, undir leiðsögn sr. Örnu Grétarsdóttur, frá Stíflisdal, frá Þingvallakirkju og loks frá afleggjaranum að Neðra Apavatni.
Í hátíðarmessu sunnudagsins 21. júlí kl. 14 mun sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup prédika og þjóna fyrir altari ásamt frú Agnesi M. Sigurðardóttur, biskupi Íslands, sr. Guðrúnu Karls Helgudóttur, sr. Guðlaugu Helgu Guðlaugsdóttur, presti í Mosfellsprestakalli, sr. Axel Á. Njarðvík, settum sóknarpresti, og Bergþóru Ragnarsdóttur, djákna, en lesarar eru Erlendur Hjaltason, formaður Skálholtsfélagsins hin nýja, og Bogi Ágústsson, formaður Stofnunar dr. Sigurbjörns Einarssonar. Skálholtskórinn syngur og organisti og stjórnandi er Jón Bjarnason. Trompetleikarar eru Jóhann I. Stefánsson og Vilhjálmur Ingi Sigurðarson.
Comments