Vígslubiskup
Vígslubiskup í Skálholti
Umdæmi vígslubiskups í Skálholti nær yfir 6 prófastsdæmi sem eru Suðurprófastsdæmi, Kjalarnessprófastsdæmi, Reykjavíkurprófastsdæmi vestra og eystra, Vesturlandsprófastsdæmi og Vestfjarðarprófastsdæmi.
Kristján Björnsson
Vígslubiskup í Skálholti
Vígslubiskup í Skálholti er sr. Kristján Björnsson. Hann var vígður biskupsvígslu á Skálholtshátíð 22. júlí 2018 af Frú Agnesi M. Sigurðardóttur, biskupi Íslands að viðstöddu miklu fjölmenni.
Ítarlegar upplýsingar um ævi og störf sr. Kristjáns er að finna á heimasíðunni www.kristjanbjornsson.is
Sr. Kristján er fæddur 6. desember 1958 og vígður prestur 9. júlí 1989 á Hólum í Hjaltadal af sr. Sigurði Guðmundssyni, vígslubiskupi. Kristján er sonur Björns Sigurðssonar, fv. lögregluvarðstjóra, og Kristínar Bögeskov, djákna, en Kristín er dáin 2003.
Sr. Kristján hefur verið sóknarprestur í Breiðabólsstaðarprestakalli í Húnavatnsprófastdæmi (9 ár), Vestmannaeyjaprestakalli í Kjalarnessprófastsdæmi sem síðar var í Suðurprófastsdæmi (17 ár), og í Eyrarbakkaprestakalli í Suðurprófastsdæmi (3 ár).
Hann er varaformaður Stofnunar dr. Sigurbjörns Einarssonar.
Á árum áður hefur sr. Kristján verið ritstjóri Kirkjuritsins, formaður Prestafélags hins forna Hólastiftis, formaður Prestafélags Íslands, formaður samráðsnefndar Norrænu prestafélaganna og formaður stjórnar Stafkirkjunnar og átt sæti í fulltrúaráði Hjálparstarfs kirkjunnar, á kirkjuþingi, í kirkjuráði, í stjórn Skálholts og í ráðgjafarnefnd um Evrópusambandsumsókn Íslands. Þá hefur Kristján verið blaðamaður, lögregluþjónn og starfsmaður þjóðgarðsins á Þingvöllum. Hann hefur verið félagi í hjálparsveitum Landsbjargar frá unglingsaldri, hestamaður og skáti. Hann hefur einnig verið leiðsögumaður hjá Íslensku fjallaleiðsögumönnum og víðar.
Sr. Kristján lauk embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands 1987 og stundaði framhaldsnám í klínískri sálgæslu við Tampa General Hospital í Tampa á Flórída 2003-4.
Eiginkona sr. Kristjáns er Guðrún Helga Bjarnadóttir, leikskólakennari og starfsmaður Blátt áfram og Barnaheilla á Íslandi og leiðsögumaður, dóttir Bjarna B. Ásgeirssonar og Elínar Guðmundsdóttur. Guðrún Helga hefur starfað um árabil með Blátt áfram að forvörnum gegn kynferðisbrotum á börnum. Hún er fv. leikskólastjóri og leikskólafulltrúi. Börnin eru fimm og barnabörnin eru 6 í þremur löndum.
Netfang: kristjan.bjornsson@kirkjan.is
Sími: 856-1592