top of page
Þorláksbúð2.jpg

Þorláksbúð

Þorláksbúð er tilgátuhús um þær byggingar sem hér stóðu frá fyrri hluta 16. aldar til loka 18. aldar

Þorláksbúð mun fyrst hafa verið reist í tíð Ögmundar Pálssonar biskups í Skálholti, á fyrri hluta 16. aldar. Fyrsta byggingin var líklega byggð eftir að kirkjan í Skálholti brann árið 1527 og var notuð til að flytja messur á meðan ný kirkja var byggð. Eftir það þjónaði Þorláksbúð ýmsum hlutverkum í gegnum aldirnar, allt til loka 18. aldar. 

Búðin var nefnd eftir Þorláki helga Þórhallssyni sem var biskup í Skálholti  1178-1193 en mörg örnefni í Skálholti bera nafn þessa manns sem var eini dýrlingur Íslands.

Gunnar Bjarnason húsasmiður hannaði og smíðaði Þorláksbúð en hann hafði mikla þekkingu og reynslu af smíði miðaldabygginga. Þorláksbúð sem hér stendur er eftirmynd skálans á Keldum og vísar í þær byggingar sem stóðu á þessum stað í gegnum aldirnar og er einskonar gluggi inn í sögu Skálholts. Endurgerð Þorláksbúðar var umdeild en fór fram að undangengnum fornleifarannsóknum.

bottom of page