top of page
Skírn.jpg

Skírn

Í skírn er skírnarþegi tekinn inn í kirkju Krists. Í Þjóðkirkjunni er algengast að barn sé skírt meðan það enn er ómálga. Samkvæmt fyrirmælum Jesú Krists er barn skírt til nafns föður og sonar og heilags anda. Það er helgað Guði með orði hans og bæn og ausið vatni og blessað.

Meginreglan er sú að barn sé skírt í kirkju og að viðstöddum söfnuði eða fulltrúum hans, en gömul hefð er fyrir því á Íslandi að skírn geti farið fram á heimili barnsins. Venjan er að barnið sem skírt er sé fært í hvítan skírnarkjól sem er tákn hreinleika og sakleysis. Kjóllinn er síður, sem táknar það að skírnarbarnið á að vaxa í trú, von og kærleika.

Ástvinir velja barninu skírnarvotta. Skírnarvottar, oft einnig nefnd guðfeðgin, eru aldrei færri en tvö, karl og kona (eins og felst í orðinu), en mest geta verið fimm. Æskilegt er að í það minnsta eitt guðfeðginana sé á þeim aldri að það geti fylgt barninu eftir til fullorðinsára. Foreldrar og guðfeðgin játa trúna fyrir hönd barns síns og skuldbinda sig þar með til að ala barnið upp í kristinni trú.

Við skírnarathöfn eru lesnir þeir ritningartextar sem skírnin byggir á. Vel fer á að ástvinir skírnarþegans lesi textana.

Hægt er að óska eftir skírn í guðsþjónustu, í einkaathöfn í kirkjunni eða með því að fá prest í heimhús eða sal. Þegar skírt er í guðsþjónustu er það gert í upphafi og sú þjónusta er foreldrum að kostnaðarlausu.

Algengast er að nafn barns sé nefnt fyrsta sinni við skírnina. Nauðsynlegt er að láta prest vita með góðum fyrirvara um nafn og nöfn skírnarvotta, sem eru tveir hið minnsta. 

Til að panta Skálholtskirkju fyrir kirkjulegar athafnir er best að senda póst á skalholt@skalholt.is 

Sé óskað eftir prest eða organista frá Skálholtskirkju má hafa samband viðkomandi:

Axel Árnason Njarðvík sóknarprestur

axel.arnason@kirkjan.is

Kristján Björnsson vígslubiskup

kristjan.bjornsson@kirkjan.is

Jón Bjarnason organisti

jon@skalholt.is

Sé óskað eftir aðstöðu fyrir veislur eða veitingar skal haft samband við Hótel Skálholt í síma 486 8870 eða á netfangið: hotelskaholt@hotelskalholt.is

bottom of page