Skálholtskórinn
Skálholtskórinn samanstendur af íbúum og sveitungum úr Skálholtsprestakalli á öllum aldri sem njóta þess að syngja, hafa gaman og taka þátt í starfi safnaðarins á lifandi og uppbyggjandi hátt.
Kórinn hefur það hlutverk að leiða söfnuðinn í fjölbreyttum söng við hátíðleg tækifæri. Skálholtskórinn tekur þátt í reglulegu tónleikahaldi í Skálholtskirkju við jól, páska, við menningardagskrár kirkjunnar og á hátíðartónleikum á Skálholtshátíð.
Jón Bjarnason organisti er stjórnandi kórsins.
Kóræfingar eru haldnar á þriðjudagskvöldum kl 20:00 - 22:00. Þegar mikið stendur til er æfingum bætt við.
Ávallt er tekið á móti nýjum röddum í Skálholtskórinn. Vinsamlegast setjið ykkur í samband við Jón Bjarnason organsista í síma 691 8321 eða á netfangið jon@skalholt.is
Saga kórsins
Skálholtskórinn var stofnaður fyrir vígslu nýrrar Skálholtsdómkirkju árið 1963 af dr. Róbert Abraham Ottóssyni, söngmálastjóra þjóðkirkjunnar. Meðlimir kórsins eru áhugafólk úr nágrenni Skálholts, en í uppsveitum Árnessýslu hefur löngum verið rík sönghefð og hefur kórinn fengið lof fyrir fallegan og metnaðarfullan söng.
Skálholtskórinn hefur verið svo lánsamur að hafa góða stjórnendur frá upphafi, fyrst dr. Róbert Abraham Ottósson, síðar Glúm Gylfason. Hilmar Örn Agnarsson var dómorganista við Skálholtsdómkirkju frá 1991 til loka 2008. Hann blés nýju lífi í kórsöng í Skálholti og náði ágætum árangri með kórinn. Núverandi dómorganisti er Jón Bjarnason. Kom hann til starfa árið í maí 2009.
Auk tónlistarflutnings við helgiathafnir í Skálholtskirkju hefur Skálholtskórinn víða komið fram í seinni tíð, jafnt erlendis sem á Íslandi, og hann á að baki fjölbreyttan flutning verka af veraldlegum og andlegum toga. Má þar m.a. nefna árlega aðventutónleika í Skálholtskirkju með þekktum íslenskum tónlistarmönnum og hljóðfæraleikurum, flutning á Skálholtskantötu Páls Ísólfssonar árið 1993 í Skálholti, Gloriu Vivaldis árið 1999 í Skálholti og Fossvogskirkju, kirkjukantötunnar „Víst mun vorið koma“ eftir Sigvald Tveid árið 2001 í Skálholti, Þorlákshöfn og Langholtskirkju og þátttöku í Brynjólfsmessu Gunnars Þórðarsonar árið 2006 í Skálholti, Keflavík og Garfarvogi. Árið 2003 kom kórinn fram á listahátíð í Piran í Slóveníu og auk þess hefur hann komið fram á tónleikum í Þýskalandi, Frakklandi og á Ítalíu.Þetta er annar geisladiskur kórsins með trúarlegri tónlist, en árið 2005 kom út diskurinn „Skálholtskórinn á tónleikum“ með upptökum af Gloriu Vivaldis og fleiri verkum. Á þessum diski, sem tekinn var upp í Skálholtskirkju, flytur kórinn kirkjulega tónlist, með og án undirleiks. Fjórir sálmanna eru eftir dr. Róbert A. Ottósson, eða í útsetningu hans, í minningu hans.