top of page

"Þinn vilji verði í heimi hér." Kyrrðardagar í kyrruviku 2024.

"Þinn vilji verði í heimi hér" er yfirskrift kyrrðardaga í kyrruviku 27. - 30. mars. Útivera, helgistundir, tónleikar, íhuganir, djúp kyrrð, Getsemanestund á skírdagskvöldi og píslarsaga Krists og tónleikar föstudaginn langa. Fastað uppá hvítt en fullt fæði er frá veitingastaðnum Hvönn í Skálholti.

"Þinn vilji verði í heimi hér." Kyrrðardagar í kyrruviku 2024.
"Þinn vilji verði í heimi hér." Kyrrðardagar í kyrruviku 2024.

TÍMI & STAÐSETNING

27. mar. 2024, 18:00 – 30. mar. 2024, 13:00

Skálholtsbúðir, Skálholt, 806, Iceland

UM VIÐBURÐINN

Kyrrðardagar í kyrruviku hvíla á áratuga hefð í Skálholti því upphaflegu kyrrðardagarnir voru einmitt í kyrruviku. Yfirskriftin er sótt í sálm frá 16. öld eftir Martein biskup Einarsson um Faðir vor (Pater noster): "Þinn vilji verði í heimi hér." Gist er í Skálholtsbúðum og gengið til Skálholtsdómkirkju í bænir, til messuhalds og á orgeltónleika. Íhuganir eru í Oddsstofu í Skálholtsbúðum sem kennd er við fyrsta þýðanda Nýja testamentis, Odd Gottskálksson. 

Þátttakendur þurfa að vera klædd og skóuð fyrir kirkjugöngurnar en svæðið kringum búðirnar er einnig kjörið útivistarsvæði. Boðið verður uppá gönguferð niður að Stekkatúni við Hvítá en víða er hægt að ganga út frá staðnum, m.a. stutt í Þorlákshver við Brúará. 

Málsverðir eru í búðunum og á Hvönn í Skálholti (Skálholtsskóla) og verður kappkostað að snæða uppá hvítt enda er kyrravika og dymbyldagar hápunktur lönguföstu. Afar gamall siður er að borða hvítmeti og á matseðlinum núna eru blómkálssúpa, plokkfiskur, hvítur fiskur með hvítu meðlæti, kjúklingur og pannacotta, saltfiskur og skyr. Lamba litabomba síðasta daginn eftir að þögnin er rofin.

Dagskráin hefst með kvöldbæn í Skálholtskirkju kl. 18 miðvikudaginn 27. mars og eftir kvöldverð á Hótel Skálholti (Skálholtsskóla) er kynning í Oddsstofu og í lok hennar er kvöldmáltíðarsakramentið og smurning með olíu og myrru og gengið inní þögnina. Þögnin er svo rofin fyrir hádegisverð á hinum helga laugardegi 30. mars og heimferð eftir málsverð og spjall yfir matnum.

Umsjón með kyrrðardögunum hafa sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup, og sr. Axel Á. Njarðvík, sóknarprestur. Organisti er Jón Bjarnason. Matreiðslumeistari er Bjarki Sól og gistingin er í höndum Gunnhildar Helgu Gunnarsdóttur, hótelstjóra í Skálholti.

Tíu herbergi eru tveggja manna og geta hjón eða vinir eða systkini skrá sig saman í herbergi en annars er fólk eitt í herbergi og ekki með ókunnugum. Verðið tekur mið af því. Verðin eru með öllu fæði og uppábúnum rúmum, með leiðbeinanda, organista, starfsfólki, þrifum og skráningargjaldi.

Verð á mann í tveggja manna herbergi kr. 69.150,-

Verð á mann í eins manns herbergi kr. 78.600,- 

Hægt er að fá námskeiðsgjaldið endurgreitt hjá mörgum starfsmenntunarstjóðum veraklýðsfélaga. 

Nánari dagskrá og verð koma síðar hér inná síðuna en það er hægt að skrá sig og þá fá allir nýjustu upplýsingar jafnóðum og þær bætast við.

Hægt er að afskrá sig ef aðstæður breytast en greiðsluupplýsingar munu berast fyrir upphaf dagskrár.  

DEILA VIÐBURÐINUM

bottom of page