top of page

"Jólafasta uppá hvítt." Kyrrðardagar á aðventu 3.- 5. desember.

Kyrrðardagar á aðventu einkennast að íhugun og kyrrð í aðdrganda jóla og er ætlað að búa okkur undir hátíðina. Yfirskriftin er "Jólafasta uppá hvítt." Hvít jól eru hátíðleg en fasta uppá hvítt er áhersla á hvítmeti á föstu. Þá er leitast við að taka út ákveðinn mat líkt og tali í samskiptum.

Skráningu er lokið en hægt að hringja og spyrjast fyrir
Sjá aðra kyrrðardaga
 "Jólafasta uppá hvítt." Kyrrðardagar á aðventu 3.- 5. desember.
 "Jólafasta uppá hvítt." Kyrrðardagar á aðventu 3.- 5. desember.

TÍMI & STAÐSETTNING

03. des. 2021, 18:00 – 05. des. 2021, 12:00

Skálholt, Skálholt, Iceland

UM VIÐBURÐINN

 Leiðbeinendur eru sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup, og sr. Sigríður Kristín Helgadóttir, sóknarprestur á Breiðabólsstað í Fljótshlíð. Jón Bjarnason, organisti, annast alla tónlist og býður til orgeltónleika á laugardeginum. Þar leikur hann meistaraverk aðventunnar á einkatónleikum þátttakenda kyrrðardaganna. 

Það er höfðað sérstaklega til hjóna, sambýlinga eða vini með lægra verði miðað við mann í tveggja manna herbergjum. 

Dagskráin helgast af hvítum lit náðarinnar sem einnig er hátíðarlitur jólanna. Á föstu var talað um að fasta uppá hvítt og var þá aðeins snæddur "hvítur matur". Það er hvítur fiskur, kjúklingur, mjólkurvörur, kartöflur og grjón. Verður hápunktur þess á laugardag þar sem allur kvöldverðurinn er hvítur, alhvít máltíð.

Á kyrrðardögum er leitast við að íhuga aðdraganda jólanna. Tilgangur þess er að ganga inní þessa íhugun, helgihald, morgun- og kvöldbæn en einnig inní algjöra þögn á aðventunni. Þögn á kyrrðardögum merkir að við tökum út allt tal í samskiptum okkar sem hópur og mun starfsfólkið einnig taka þátt í þessari tegund af þögn. Tónlistin skiptir miklu máli en ekki síður stundir þar sem prestur flytur íhuganir sínar sem allar lúta að innihaldi aðventunnar, eftirvæntingu þess að bíða komu Drottins. Í helgistundum er ekki samtal í sjálfu sér en þar er þátttakendum frjálst að syngja með og lesa bænirnar upphátt. Það gefur bæninni sérstakt gildi þegar öllu öðru tali hefur verið rutt burt.

Kyrrðardagar á aðventu bjóða einnig uppá einkaviðtal við prest. Það getur komið sér vel þar sem margir kvíða jólum eða eru hugsi yfir jólum á breyttum tíma eða við breyttar aðstæður í einkalífi og fjölskyldu. 

Lögð er áhersla á að vinna úr og dvelja í biðinni en það er inntak aðventunnar. Einnig er unnið sérstaklega með þögn Maríu guðsmóður sem á þetta tímabil öðrum fremur. Einnig merkilegri þögn Jósefs og hvernig Jesús sjálfur nýtti umbreytingarmátt kyrrðarinnar nokkuð oft í frásögnum guðspjallanna.

Kyrrðardagar á aðventu byggja á vegi kristinnar íhugunar og er byggt á bókum Thomas Keating og fleirum.

Leiðbeinendur eru bæði með framhaldsmenntun á sviði klínískrar sálgæslu og viðtalstækni. 

Boðið verður uppá einstaklingsviðtöl inná millli dagskrárliða á tíma sem fólk velur sér og skráir sig til á staðnum.

Dagskrá kyrrðardaga á aðventu:

Föstudagur 3. desember

17.00 – 18.00 Komið á staðinn og herbergin klár. Hægt er að fá herbergin fyrr.

18.00 Kvöldbæn með Lofsöng Maríu í Skálholtsdómkirkju.

18.30 Kvöldverður í borðsal Skálholtsskóla, Veitingastaðnum Hvönn. Hvítur fiskur með hvítvínsósu og hvítu grænmeti, fastað upp á hvítt. Eftirréttur er panna cotta með berjasósu.

20.00 Samvera í setustofunni, arinstofu Skálholtsskóla. Kynning á dagskrá og þátttakendum. Gengið inn í þögnina með náttsöng, kvöldmáltíð og bæn í kapellu Skálholtsskóla.

Laugardagur 4. desember

8.00 Vakið með söng. Morgunverður í borðsalnum, Veitingastaðnum Hvönn.

9.00 Morgunbæn, prim, í Skálholtsdómkirkju.

10.00 Íhugun í stofu Gestastofunnar. "Þögnin í kærleiksverki Maríu guðsmóður."

10.45 Frjáls tími til útivistar, lestrar eða annarrar iðju.

12.00 Hádegisbæn og hádegisverður í Gestastofu. Yndælis blómkálssúpa og kaffi á eftir.

14.00 Íhugun í Gestastofunni: "Þögn Drottins og návist hans í okkar ró."

15.00 Kaffi í stofu Gestastofunnar þegar fólki hentar. Frjáls tími.

17.00 Orgelleikur í Skálholtskirkju. Tónverk meistaranna á aðventunni. Jón Bjarnason, organisti.

18.00 Kvöldbæn með lofsöng Maríu í Skálholtsdómkirkju.

19.00 Kvöldverður í borðsal Skálholtsskóla, Veitingahúsinu Hvönn. Heimagerðar fiskibollur með smjörsósu, kartöflumús og hvítu grænmeti. Kaffi og kökubiti í eftirrétt.

21.00  Íhugun í sal Skálholtsskóla við altari kapellunnar þar: "Bið og von aðventunnar með ilmi bænaolíunnar."

Sunnudagur 5. desember

08.00 Vakið með söng. Morgunverður í borðsalnum, Veitingahúsinu Hvönn.

09.00 Morgunbæn, prim, í Skálholtsdómkirkju.

09.30 Samvera í setustofu. Þögn aflétt. Samtal og viðbrögð.

11.00 Messa í Skálholtsdómkirkju 2. sd. í aðventu. Sr. Kristján Björnsson, biskup. Organisti Jón Bjarnason. Fararbæn og blessun í lok messunnar. 

12. 15 Hádegisverður í borðsal Skálholtsskóla, Veitingastaðnum Hvönn. Kjúklingabringa með hrísgrjónum, steinsljurótar mauki og hvítu grænmeti.

Skráning og upplýsingar:

Skráning er hér á síðunni og eru þar dálkar að fylla út, m.a. um sérfæði eða sérstakar óskir. Sú nýbreytni er að bjóða uppá lægra verð fyrir tvö/tvær/tvo í herbergi og er hér höfðað til hjóna og annarra sambýlinga eða t.d. systkina eða vini sem vilja upplifa kyrrðina saman. 

Verð á mann í einbýli er 55.400,- með gistingu og öllum máltíðum frá föstudagskvöldverði til hádegisverðar á sunnudag. Verð miðað við mann í tveggja manna herbergi er kr. 46.500,- . Leiðsögn og skráning er innifalin í þessum verðum. Hægt er að fá reikning fyrir þessum námskeiðskostnaði ef nota á það til endurgreiðslu úr starfsmenntunarsjóðum sem margir launþegar eiga kost á. 

Við skráningu berast upplýsingar um skráningargjaldið sem er hluti af heildarverðinu hér að ofan.

Verið hjartanlega velkomin á kyrrðardaga á aðventu, jólaföstu uppá hvítt!  

DEILA VIÐBURÐINUM

bottom of page