top of page

UMHVERFISSTEFNA ÞJÓÐKIRKJUNNAR

Skálholtsjörðin okkar og erindi vígslubiskups

Landnytjar í Skálholti miðast við umhverfisstefnu Þjóðkirkjunnar. Unnið er að endurheimt votlendis í Skálholti. Ræktaður er skógur til kolefnisjöfnunar í samstarfi við Skógrækt ríkisins og Kolvið ehf. í nyrsta hluta Skálholtsjaðrarinnar. Sóknir landisns planta trjám í Helgilund, sem er til kolefnisjöfnunar á starfssemi viðkomandi sóknar. Hitaveita Skálholts úr Þorlákshver er sjálfbær orkugjafi. Í Skálholti eru hleðslustöðvar fyrir rafmagnsbíla. Leitast er við að sækja hráefni til matargerðar í nágrenni Skálholts og rækta í Skálholti kál og kryddjurtir.

   Stöðugt er unnið að vekjandi umræðu um umhverifsmál og efnt hefur verið til alþjóðlegrar ráðstefnu um hlutverk trúarhreyfinga í umhverfisvernd og viðbrögðum við loftslagsvá jarðarbúa, m.a. með þáttöku UNEP, umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna.

   Með boðun fagnaðarerindisins um Jesú Krists og kærleika hans og von okkar í Guði er erindi vígslubiskups, sr. Kristjáns Björnssonar, að efla vitund um frið, sáttargjörð og umhverfismál og sérstaklega að minna á ábyrgð kristinnar manneskju gagnvart hlýnun jarðar, súrnun sjávar, vanda flóttafólks, ógnun við mannréttindi, misskiptingu auðæfa jarðar og hraðri þróun gervigreindar.

Umhverfisstefna Þjóðkirkjunnar

Vísindin hafa fært sönnur á að mannkynið stendur frammi fyrir loftslagsvá sem ógnar lífríki og vistkerfum jarðar og teflir hlutskipti komandi kynslóða í tvísýnu. Fátækt fólk á jaðarsvæðum, frumbyggjar á pólsvæðum og íbúar strandbyggða og lálendra eyja glíma þegar við afleiðingar loftslagsbreytinga. Takist ekki á næstu áratugum að koma fram þeirri umbreytingu sem Parísarsamkomulag þjóðríkja kallaði á árið 2015, blasa við hamfarir um heim allan. Þessi vandi er siðferðilegt málefni sem varðar alla. Alkirkjuráðið og Lútherska heimssambandið hafa í þrjá áratugi látið loftslagsmál til sín taka. Íslenska þjóðkirkjan er aðili að stefnu þeirra þar sem áréttað er að jörðin sé ekki til sölu. Í henni felst áskorun til safnaða og leiðtoga kirkjunnar um að boða frið við jörðina, hófsaman lífsstíl og réttláta skiptingu jarðargæða. Þar er einnig um að ræða hvatningu til trúmennsku við þá spámannlegu köllun kirkjunnar að benda á óréttlæti, ójöfnuð, félagslega neyð og náttúruspjöll af mannavöldum. Lífið og tilveran öll er sköpunarverk Guðs. Lífið er heilagt og hefur eigið gildi. Manneskjan er hluti af náttúrunni en ekki yfir hana hafin. Hún ber jafnframt sérstaka ábyrgð vegna stöðu sinnar í sköpunarverki Guðs samkvæmt gyðing-kristinni hefð. Þeirri ábyrgð fylgir sú siðferðilega skylda að hlú að öllu lífi. Hlutverk mannkyns er að yrkja jörðina, vernda hana og næra, og nýta gæði hennar af umhyggju og virðingu með sjálfbærni að leiðarljósi.

 

Einkennisorð þjóðkirkjunnar eru:

Biðjandi, boðandi, þjónandi.

• Við biðjum fyrir því að allir sem á Íslandi búa vakni til vitundar um nauðsyn þess að umbreyta lífsháttum þannig að markmið í loftslagsmálum og náttúruvernd náist.

• Við boðum lífsmáta sem dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda, sóun orku og matar og notkun skaðlegra umbúða.

• Við þjónum náttúrunni sem allra best öllum i hag, meðal annars með endurheimt votlendis, skógrækt, landgræðslu og vistvænni starfsemi söfnuða kirkjunnar. Við sem störfum í kirkjunni viljum taka höndum saman við aðrar hreyfingar og einstaklinga sem láta sig náttúruvernd og baráttuna gegn loftslagvá varða. Samstillt átak og stuðning almennings þarf til þess að knýja fyrirtæki og stjórnvöld til þess að standa við markmið í loftslagsmálum og náttúruvernd. Kirkjan lætur sig varða náttúruvernd og sýnir í orði og verki að hún tekur loftslagsmálin alvarlega. Kirkjuráði og umhverfisnefnd kirkjunnar er falið að fylgja umhverfisstefnunni eftir með aðgerða- og starfsáætlun sem sé fjármögnuð. Markmiðið er að vekja starfsólk og söfnuðinn til umhugsunar um náttúruna og náttúruvernd, veita þeim úrræði til að sporna gegn frekari loftslagsbreytingum og til að leggja sitt að mörkum.

 

Atriði í aðgerðaráætlun umhverfismála fyrir árin 2018-2020

 

Í samræmi við umhverfisstefnu þjóðkirkjunnar samþykkir kirkjuþing eftirfarandi atriði í aðgerðaráætlun umhverfismála 2018-2020:

 

• Handbók um umhverfisstarf í söfnuðum og kirkjustarfi verði endurnýjuð og birt á vef kirkjunnar, á efnisveitu kirkjunnar.

• Kirkjan stundi siðræn viðskipti með áherslu á hag frumframleiðenda og umhverfisvottaðar vörur.

• Staðið verði fyrir námskeiðum um umhverfismál t.d. vistmenningu, innkaup á vörum og sorpflokkun.

• Efnt verði til samstarfsverkefna með öðrum hreyfingum, stofnunum og einstaklingum sem vinna að umhverfismálum og sjálfbærni.

• Tímabil sköpunarverksins, sem efnt var til í fyrsta sinn sl. haust, verði fest í sessi í september ár hvert, með viðburðum, helgihaldi og fræðslu um umhverfismál, t.d. umhverfisdögum í kirkjum og uppskerumessum.

• Sérstök áhersla verði lögð á umhverfisfræðslu í barna-, og æskulýðsstarfi kirkjunnar, svo og í fermingarstarfi.

• Í samræmi við ályktun frá kirkjuþingi unga fólksins (3. mál 2017) um að einnota plastmálum verði útrýmt úr safnaðarstarfi kirkjunnar, verður notkun einnota plastmála hætt þegar í stað. Notkun annarra einnota áhalda, borðbúnaðar og umbúða í safnaðarstarfi kirkjunnar verði hætt fyrir árslok 2018.

• Efld verði að nýju átaksverkefni og starf í líkingu við Breytendur á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar.

• Gert verði sérstakt átak í endurheimt votlendis á kirkju- og prestssetursjörðum með sambærilegum hætti og gert hefur verið í Skálholti. Haldið verði áfram skógrækt og landgræðslu á kirknajörðum með endurnýjuðum krafti.

• Undirbúinn verði farvegur fyrir stærri söfnuði til þess að fá vottun á sjálfbærri starfsemi sinni hjá Umhverfisstofnun.

 

Greinargerð með umhverfisstefnu

 

1. Áhrif loftlagsbreytinga, vonarrík framtíð, ábyrgð manneskjunnar og ákall náttúrunnar

• Nefnd sem starfar á vegum Sameinuðu þjóðanna og kallast milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftlagsbreytingar (IPCC) gefur á nokkurra ára fresti út úttektarskýrslu um áhrif loftlagsbreytinga. Síðasta skýrsla var gefin út 2014. Samkvæmt þeirri skýrslu eru áhrif loftlagsbreytinga víðtækastar í náttúrufari. Þær hafa áhrif á bráðnun íss og vatnsauðlindir, dýralíf og hafa neikvæð áhrif á jarðrækt svo dæmi séu tekin. Náttúruvá hefur oft neikvæð áhrif á fátækari hópa.

• Nauðsynlegt er að grípa til aðgerða, þar lætur kirkjan ekki sitt eftir liggja. Með því að huga vel að sköpuninni erum við að lúta vilja Guðs.

• Mannkynið er hluti sköpunarinnar, þær loftlagsbreytingar sem við stöndum frammi fyrir kalla á endurnýjun boðunar og fagnaðarerindisins og samtal um sambýli okkar við jörðina.

• Kirkjan er kölluð til að taka þátt í vitundarvakningu varðandi umhverfisvernd og breytingu á hugsunarhætti þegar kemur að umhverfinu og náttúrunni. 

 

2. Staða manneskjunnar í náttúrunni og nauðsynlegar breytingar á samfélagsgerðinni

• Loftlagsbreytingar og þær afleiðingar sem breytingarnar hafa í för með sér er ógn, ekki bara vegna þess að Guð treystir manneskjunni fyrir náttúrunni og sköpuninni heldur vegna þess að lífið er gjöf sem ber að verja fyrir hverri ógn.

• Leggja þarf áherslu á sjálfbær hagkerfi og útrýma ósjálfbærum hagkerfum sem ganga gegn umhverfislegri og félaglsegri sjálfbærni.

• Hugmyndin um „Guðs góðu sköpun“ glatast þegar samfélagið telur manneskjuna sjálfstæða og óháða veru í náttúrunni og hafnar því að æðri vitund eða veruleiki sé til.

• Manneskjan lýtur ekki vilja Guðs með því að spilla náttúrunni. Það er synd gagnvart Guði og mönnum sem og glæpur gegn náttúru jarðar.

• Hvetja þarf til að leita lausna í stað þess að takast einungis á við afleiðingarnar. Slíkar lausnir geta falið í sér að færa þarf fórnir og huga að náunganum. Í þessu samhengi er náttúran náungi minn. Í stað óhóflegrar neyslu og takmörkunar á skiptingu gæða þarf að minnka neyslu og huga að réttlátri skiptingu gæða.

 

3. Leið náttúrunnar til manneskjunnar og manneskjunnar til náttúrunnar gegnum trú

• Ganga þarf til móts við náttúruna, vera eitt með og í henni og muna að manneskjan er hluti af sköpunarverkinu.

• Afleiðing þess að finna fyrir nálægð sköpunar og náttúru er að manneskjan verður sjálfkrafa auðmjúk frammi fyrir sköpuninni.

• Með upplifun á náttúrunni getur manneskjan séð Guð opinberast í sköpuninni, náttúrunni. Manneskjan getur séð kærleika Guðs gagnvart stóru sem smáu opinberast í náttúrunni.

• Allar manneskjur þurfa að vinna saman að því að snúa við neikvæðri þróun á umhverfi og náttúru og reyna að finna sjálfbærar lausnir á umhverfisvandanum. Slík samstaða vekur von um að hægt sé að sporna gegn frekari lotlagsbreytingum og náttúruvá af hennar völdum. Samkvæmt kristnum mannskilningi er ímynd Guðs að finna í hverri manneskju, slík samstaða eflir vonina um að skapa sameiginlega framtíð allra. Sömuleiðis eru allar manneskjur ábyrgar frammi fyrir umhverfisvánni sem við stöndum frammi fyrir. Fræðsla og þekking um stöðu mála þarf að miðla til allra til að vekja fólk til vitundar um umhverfisvánna og hvetja fólk til náttúruverndar.

• Um leið þurfum við að hlusta á þær raddir ungs fólks sem undrast að hægt sé að tala um að skapa betri heim án þess að hugsa um umhverfisvánna. Ábyrgðarleysi okkar núna í umhverfismálum má ekki bitna á börnum okkar og barnabörnum sem þurfa síðar að gjalda fyrir það.

 

4. Almannagæði og syndin gegn náttúru og mannkyni

• Við ógnum lífi okkar og umhverfi með því að menga loft, jörð, fæðu og vatn. Ýmis efni sem búin eru til af manna völdum eyðileggja vistkerfi og eru raunveruleg ógn við líf, heilsu og lífsgæði.

• Kostnaðurinn sem hlýst af lakari heilsu af mengungarvöldum er gríðarlegur og kostar samfélagið mikið.

• Að afneita því að heilsutjón almennings af mengunarvöldum sé staðreynd er synd gegn Guði og náttúrunni.

• Þjóðir sem þurfa að flýja búsvæði vegna mengunar eru flóttamenn og eiga réttláta og sanngjarna kröfu á að setjast að annars staðar.

• Stór hnattvæn vistkerfi eins og heimshöfin eru sameiginleg eign allra þjóða og eiga að njóta verndar alþjóðasamfélagsins. Aðgerðir til mótvægis á súrnun heimshafanna er nauðsynleg. Spilling hafanna er synd gegn Guði.

• Aðgangur að hreinu og óspilltu vatni eru almannagæði (óseljanleg). Það er á ábyrgð alþjóðasamfélagsins að varðveita og hindra spillingu þeirra gæða. Hindrun í aðgangi að vatni til lífsviðurværis og ræktunar er glæpur gegn grundvallar mannréttingum og sköpunarverkinu.

 

5. Rányrkja jarðar, spilling náttúrugæða og réttur til almannagæða

• Líffræðilegur fjölbreytileiki er ómetanlegur fyrir mannkynið. Hægt er að nota hann til að takast á við náttúrulegar breytingar, sækja í sjóði lækninga og sjálfbæra þróun til tækniframfara.

• Líffræðilegur fjölbreytileiki eru almannagæði í sjálfu sér. Allar lífverur eru almannagæði hvers líf og tilvist ber að virða.

• Mismunandi vistkerfi náttúrunnar eru ígildi lífvera sem lúta umgengisreglum eins og lífverur og eyðing þeirra eru glæpir gegn náttúru og mannkyni.

• Hagnýting náttúrugæða eru afnotaréttur sem veittur er af því samfélagi sem þróast hefur í og af þeim gæðum og getur eðli sínu samkvæmt aldrei orðið varanleg eign en eru varanlegt andlag verndunnar og umhyggju þess samfélags.

• Skilyrði fyrir sjálfbærri jarðnýtingu jarðgæða er þekking á þeim og þróun þeirra ásamt reynslu af viðgangi þeirra og afkomu. Nýting og afrakstur skal á hverjum tíma vera í samræmi við bestu þekkingu og yfirhylming á skaðlegum áhrifum nýtingar á náttúru, líf og heilsu ætti að vera refsivert. 6. Manneskjan í samfélagi og umhverfi, - samfélög manneskjunnar sem vistkerfi

• Manneskjan er lífvera í samfélagi og á rétt á að lifa með reisn. Hver samfélagsgerð er vistkerfi og ber að hlúa að öllum þáttum sjálfbærni þess í réttlátu samræmi við menningu, arfleið og velferð.

• Samfélög þjóða bera ábyrgð á því að styðja við sjálfbærni byggða og borga í sínu nágrenni og aðstoða við að leysa úr vanda við fæðuöflun, byggingu innviða og hollustu meðan verið er að koma jafnvægi á og stuðla að lífvænlegu og réttlátu samfélagi til frambúðar. • Þroski manneskjunnar sem vitsmunarveru í trúarsamfélagi og trú eru samfélagsleg gæði sem ber að rækta og virða á forsendum trúarsamfélagsins sjálfs svo framarlega sem það sé gert í samræmi við mannréttindi og almannaheill.

• Ójöfnuður í samfélagi manneskjunnar sem byggir á mismunun og ranglátri auðsöfnun fárra gengur gegn réttlæti og er andstæða við sjálfbærni. Eðli slíks ástands getur leitt til ófriðar og því getur slíkt ástand leitt af sér samfélagshrun.

• Náttúran er berskjölduð gegn slæmri meðferð og á engan annan málsvara en manneskjuna. Það er skylda manneskjunnar að hlúa að náttúrunni. Að afneita eða horfa fram hjá skyldum sínum er tilhneiging sem dvelur í okkur öllum og ógnar sú tilhneiging framtíð okkar á jörðinni. Kirkjan verður að opna augun fyrir og vinna gegn því að spilling á umhverfinu og siðferðileg hnignun haldist í hendur.

 

 

Samþykkt á kirkjuþingi 2017

bottom of page