top of page

UM SKÓLANN

Skálholtsskóli

Árið 1056 varð Skálholt biskupssetur og strax var þar stofnaður skóli til þess að mennta presta sem hina ungu kirkju bráðvantaði. Síðan hefur Skálholtsskóli starfað, reyndar með nokkrum hvíldum síðustu tvær aldirnar, og aðlagað sig að þörfum samfélagsins á hverjum tíma. Það má segja að hann hafi starfað sem menntaskóli, prestaskóli og lýðháskóli.

 

Starf Skálholtsskóla er samtengt þeim atburðum öðrum sem eiga sér stað í Skálholtskirkju og Skálholtsbúðum. Skálholtsskóli starfar samkvæmt lögum frá 1933. Starfsfólk og skólaráð móta starfsemi hans. Hér má nefna málþing um siðferðileg álitaefni, fermingarnámskeið, ráðstefnur sérfræðinga, vinnufundir fyrirtækja og stofnana, kyrrðardagar, orlofsdagar eldri borgara, námskeið háskólanema, fræðslunámskeið kóra og starfsfólks safnaða, þrettándaakademía presta, erlendir ferðahópar í söguskoðun og heimsóknir einstaklinga sem miðla af sérstakri reynslu. En skólinn er opinn fyrir nýjungum í starfi og fagnar öðrum aðilum til samstarfs sem vilja brydda upp á öðrum verkefnum, sem falla að stefnu skólans.

Kirkjuleg fræðslu- og menntastofnun

„Það er enginn skóli lengur í Skálholti“, heyrist stundum sagt, því að ekki er lengur venjubundið formlegt skólahald eins og verið hefur um aldir. Því var breytt með lögum árið 1992 og nú starfar skólinn í opnu formi sem kirkjulegt fræðslu- og menntunarsetur sem býður alla velkomna til þátttöku. Skólinn hefur þannig aðlagað sig að nýjum aðstæðum og þörfum kirkju og samfélags.

 

Starf Skálholtsskóla

Skálholtsskóli byggist að sjálfsögðu á kirkjulegri, kristinni hefð og er í anda hinnar norrænu lýðháskólahefðar. Still hans mótast af samveru fólks sem kemur saman til að fræðast og miðla þekkingu sinni, vinna saman verkefni og þjálfast í ýmsum greinum, njóta lista, blanda geði við aðra, hvílast og uppbyggjast við helgihaldið.

Starf Skálholtsskóla er að sjálfsögðu samtengt þeim atburðum öðrum sem eiga sér stað í Skálholtskirkju og Skálholtsbúðum. Hefðbundið starf hans er margvíslegt; málþing um siðferðileg álitaefni, fermingarnámskeið, ráðstefur sérfræðinga vinnufundir fyrirtækja og stofnana, kyrrðardagar, orlofsdagar eldri borgara, námskeið háskólanema, fræðslunámskeið kóra og starfsfólks safnaða, þrettándaakademía presta, erlendir ferðahópar í söguskoðun og heimsóknir einstaklinga sem miðla af sérstakri reynslu. En skólinn er opinn fyrir nýjungum í starfi og fagnar öðrum aðilum til samstarfs sem vilja brydda upp á öðrum verkefnum, sem falla að stefnu skólans.

Móttaka gesta

Gestrisni hefur alltaf einkennt Skálholtsstað og Skálholtsskóli býður upp á menningartengda ferðaþjónustu. Gisting af ýmsum verðflokkum er til reiðu og heimilislegur matur. Boðið er upp á staðarskoðun í ljósi sögunnar og í framhaldi af því eru í boði máltíðir að hætti fyrri tíðar; 17. aldar kvöldverður að hætti Þórðar biskups Þorlákssonar eða miðaldakvöldverður að hætti Þorláks helga ( +1178).

Skálholt er í fögru umhverfi, útsýni til Heklu en Gullfoss og Geysir í sömu sveit. Skammt undan eru sundlaugar, golfvellir, hestaleigur, veiðiár og góðar gönguleiðir.

Á nýrri öld

Nú starfar Skálholtsskóli sem fræðslu- og menntasetur kirkjunnar. Hefur starf skólans verið skipulagt þannig að það mæti sem best þörfum hins flókna samfélags sem við lifum í við upphaf nýrrar þúsaldar. Haldin eru námskeið af ýmsu tagi, málþing, ráðstefnur, tónleikar, listsýningar og kyrrðardagar sem skólinn eða hinar ýmsu stofnanir samfélagsins efna til og skipuleggja.

Boðið til samveru

Skálholtsskóli býður kirkjulega aðila sem önnur félög og stofnanir velkomin til samstarfs og til að nýta aðstöðu þar til fræðslustarfs og funda. Skólinn aðstoðar við skipulag námskeiða og útvegun fyrirlesara ef óskað er. Boðið er upp á staðarskoðun, mismunandi ítarlega, að óskum gesta. Gestir á Skálholtsstað eru að sjálfsögðu velkomnir til helgihaldsins. Þar eru daglegar morgun -og kvöldtíðir og messa á sunnudögum í Skálholtskirkju.

Aðstaða

Í Skálholtsskóla eru fræðslu- og ráðstefnusalir sem rúma um 80 manns en þeim má skipta í þrjá minni sali. Matsalurinn með bókakaffi rúmar 120 manns, vistleg setustofa er með arni og sjónvarpi. Í skólanum eru 36 gistirými og þar að auki er gistiaðstaða fyrir 35 í öðrum húsakynnum staðarins. Boðið er upp á uppbúin rúm sem svefnpokagistingu. Sjá nánari upplýsingar um gistingu hér.

 

Kyrrðardagar

Allt andar af sögu og helgi á Skálholtsstað sem hefur áhrif á flesta þá er þangað koma. Fólk sem þarf að takast á við erfiðar ákvarðanir eða þungbærar fréttir er velkomið að eiga skjól í Skálholti, sömuleiðis þau sem vilja vera í kyrrð með sjálfum sér og Guði sínum. Einnig eru skipulagðir kyrrðardagar fyrir hópa og eru öllum opnir.

Tengsl kirkju og þjóðlífs

Skálholtsskóla er ætlað m.a. að efla tengsl kirkju og þjóðlífs og vinnur því skipulega að samstarfi við fjöldahreyfingar, félög og stofnanir samfélagsins. Jafnframt er skólanum ætlað að efla innra starf þjóðkirkjunnar með margskonar fræðslustarfi og stuðla að sem víðtækustum áhrifum kristinnar trúar og menningar í íslensku þjóðlífi. Við vonum að allir Íslendingar geti fundið sig heima í Skálholti og notið þess sem staðurinn hefur upp á að bjóða. Erlendir gestir eru líka hjartanlega velkomnir enda er menningartengd ferðaþjónusta liður í starfi Skálholtsskóla.

bottom of page