top of page

ÞORLÁKUR HELGI ÞÓRHALLSSON

Þorlákur helgi Þórhallsson var biskup í Skálholti 1178–1193. Hann var fæddur1133 að Hlíðarenda í Fljótshlíð. Hann hlaut menntun í Odda hjá lærdómsmanninum Eyjólfi presti, syni Sæmundar fróða, og vígðist ungur til prests.

Þorlákur hélt utan til náms og var sex ár (1153–1159) í París og Lincoln. Á báðum stöðum voru frægir skólar á tólftu öld.

Eftir utanförina var hann fyrst prestur í Kirkjubæ á Síðu, uns hann varð príor 1168 og síðar ábóti í nýstofnuðu klaustri í Þykkvabæ í Veri, hinu fyrsta á Íslandi af reglu Ágústínusarmunka.

 

Kjörinn biskup í Skálholti
Á alþingi 1174 var Þorlákur kosinn biskup í Skálholti í stað Klængs Þorsteinssonar. Þorlákur fór ekki utan til vígslu fyrr en 1177 og var vígður til biskups í Niðarósi 2. júlí 1178. Hann var biskup í Skálholti til dauðadags, 23. desember 1193.

Efldi kirkjustarf á Íslandi
Þorlákur var mjög stjórnsamur í embætti og átti mikinn þátt í því að efla kirkjuvald á Íslandi. Kröfur hans um forræði kirknaeigna og tíunda og um almenna siðbót í hjónabandsmálum mættu mikilli mótspyrnu íslenskra höfðingja.

 

Tekinn í dýrlingatölu
Barátta Þorláks biskups fyrir hreinlífi landsmanna og málstað kirkjunnar stuðlaði að því að hann komst í tölu dýrðarmanna. Fljótlega eftir lát hans fór orð af helgi hans og voru bein hans tekin úr jörðu 20. júlí 1198. Á alþingi 1199 voru fyrst lesnar upp kraftaverkasögur af Þorláki og dánardagur hans síðan lögtekinn messudagur. Þorláksmessa á sumar, upptökudagur beina hans, var lögtekinn 1237. Á kaþólskum tíma voru yfir 50 kirkjur helgaðar heilögum Þorláki og aðeins Pétri postula, Maríu og Ólafi helga voru helgaðar fleiri kirkjur en honum.

 

Útnefndur verndardýrlingur Íslands
Jóhannes Páll páfi II útnefndi Þorlák verndardýrling Íslands með tilskipun 14. janúar 1985.

 

Texti í kjallara Skálholtskirkju
Mynd: Á altarisklæði Hóladómkirkju voru auk Þorláks saumaðar myndir af Jóni Ögmundssyni, Guðmundi góða og tveimur englum. Klæðið er refílsaumað, huganlega af Helgu ástkonu og barnsmóður Jóns Arasonar. Frá 15. öld. Þjms. Ísl.

Fleiri myndir hafa verið gerðar af Þorláki en öðrum biskupum en þó er engin lýsing til af honum.

 

Mynd: Af hátíðaskrúða frá Hólum. Gullisaumað á grunn úr rauðu silki. Líklega erlent frá því um 1200. Varðveitt í Þjms.

 

Mynd: Úr glerglugga í dómkirkjunni í Lincoln.

 

Mynd: Teikning, sem ásamt fleirum, var gerð að tilhlutan Árna Magnússonar af nú glötuðum kirkjurefli frá Vatnsfirði. Refill var frá katólskri tíð líklega um 75 sentímetra hár og 13–14 metra langur, með þrykktum eða máluðum myndum af 25 dýrlingum.

 

Mynd: Höfundur myndar frá 1993 er Ágústa Gunnarsdóttir. Styttan er í Þorlákshafnarkirkju.

Þorlákur þótti góður stjórnandi. Hann var málstirður en laginn fésýslumaður og kunni vel að fara með vald. Rækti helgihald, var bæði reglusamur og hófsamur. Vín drakk hann í mannfagnaði öðrum til samlætis en aldrei sá á honum drykkju. Snemma var því á borð borið að gott væri að heita á Þorlák til ölgerðar og víns. Hann kvæntist aldrei, bætti kirkju Klængs með steindu gleri, sem hann flutti heim eftir biskupsvígsluna. Hann átti í miklum deilum við veraldlega höfðingja, einkum uppeldisbróður sinn, Jón Loftsson.

 

Mynd: Höggmyndin er gerð 1907 af Anne Raknes þegar vesturframhlið Niðarósdómkirkju var lagfærð.

Vísitasíuferðir Skálholtsbiskupa voru tímafrekar og erfiðar. í hverri kirkju sem Þorlákur heimsótti söng hann fyrst lof heilagri þrenningu, eftir það lofaði hann þá helga menn eða konur sem kirkjan var helguð. Þá las hann Maríutíðir og lagðist loks á gólfið fyrir altari og bað lengi fyrir Guðs kristni. Hann vígði kirkjur, blessaði fermingarbörn, sat veislur, leiðbeindi prestum, þótti spakur og ráðsnjall og litið var á hann sem helgan mann löngu fyrir andlátið.

 

Mynd: Teikning Tryggva Magnússonar (hluti). Í safnaðarheimili Kristskirkju í Reykjavík.

Þorlákur veiktist í vísitasíuferð og lést árið 1193 einni nóttu fyrir jólaaftan, sem nú er kölluð Þorláksmessa. Helgir menn á tólftu öld þóttu með sérstökum hætti farvegur Guðs náðar. Á dögum Þorláks væntu menn kraftaverka og sáu þau gerast. Á fyrstu Þorlákstíðum logaði á 130 vaxkertum í kirkjunni sem viðstaddir höfðu borið með sér til virðingar við hinn látna. Árið 1198 var líkami Þorláks tekinn upp og kistunni komið fyrir í dómkirkjunni. Var þar á meðal gesta Guðmundur Arason, síðar nefndur góði, og stjórnaði hann söng. Þetta var 20. júlí og síðar lögtekið að þá skyldi syngja Þorláksmessu að sumri.

 

Mynd: Styttan er í Kristskirkju.

Sagt var að af kraftaverkum Þorláks biskups „gafst mikið fé til staðarins í Skálholti af öllum löndum, er nafn hans var kunnugt, mest úr Noregi, mikið af Englandi, Svíþjóð, Danmörku, Gautlandi, Gotlandi, Skotlandi, Orkneyjum, Færeyjum, Katanesi, Hjaltlandi, Grænlandi en mest innan lands“.

 

Mynd: Myndabúturinn er úr kirkjuklæði frá Skarði á Skarðsströnd. Telst vera frá fyrri hluta 16. aldar. Ef til vill saumað í klaustrinu að Reynisstað af Þuríði, dóttur Jóns Arasonar. Varðveitt í Þjms.Ísl.

Árið 1198 var samþykkt á Alþingi að leyfa áheit á Þorlák biskup, sem helgan mann, og sama sumar voru bein hans tekin upp og skrínlögð 20. júlí. Er það síðan Þorláksmessa á sumri.

bottom of page