Verið velkomin á Skálholtshátíð 16. - 18. júlí


Skálholtshátíð verður stóru helgina 16. - 18. júlí og þar er hátíðarmessan sunnudaginn 18. júlí kl. 14. Á dagskrá eru tónleikar, heilgihald, málþing, langar og stuttar pílagrímagöngur og örstuttar vettvangsferðir með leiðsögn. Eftir hámessu sunnudagsins er hátíðardagskrá eftir kirkjukaffið í skólanum með hátíðarræðu Þórunnar Erlu- Valdimarsdóttur, rithöfundar og sagnfræðings, söng Skálholtskórsins úr óperunni Ragnheiði og ávörpum. Núna eru 380 ár frá fæðingu Ragnheiðar Brynjólfsdóttur og verður þess minnst sérstaklega í hátíðardagskránni. Einnig eru liðin 110 ár frá fæðingu dr. Sigurbjörns Einarssonar biskups og verður þess minnst með málþingi á vegum Stofnunar dr. Sigurbjörns Einarssonar laugardaginn 17. júlí kl. 10-12.


Fyrir Skálholtshátíðina eru pílagrímagöngur sem enda með inngöngu í hátíðarmessuna á sunnudeginum. Lengsta pílagrímagangan er frá Hólum í Hjaltadal yfir Kjöl og allar götur í Skálholt. Leiðsögumaður er sr. Dagur Fannar Magnússon. Önnur löng ganga er frá Bæ í Borgarfirði og þriðja frá Reynivöllum í Kjós. Leiðsögumenn eru sr. Elínborg Sturludóttir og sr. Arna Grétarsdóttir. Hægt er að skrá sig til göngu dag fyrir dag eða bara einn dag. Síðustu dagleiðir á sunnudagsmorgni eru annars vegar frá Neðra Apavatni og hins vegar frá Bræðratungu með ferju yfir hjá Hrosshaga.


Föstudagskvöldið 16. júlí kl. 20 verða Hjörleifur Valsson og Jónas Þórir með tónleika á fiðlu og orgel í kirkjunni.


Laugardaginn 17. júlí er útimessa við Þorlákssæti kl. 9, málþing um Sigurbjörn Einarsson kl. 10, vettvangsferðir kl. 13.30 og hátíðartónleikar undir stjórn Jóns Bjarnasonar kl. 16.


Sunnudaginn 18. júlí er Jón Bjarnason með orgeltónleika kl. 11, hátíðarmessan er kl. 14 með skrúðfylkingu og inngöngu pílagríma og svo er hátíðardagskráin kl. 16.

Í messunni og hátíðardagskránni og á tónleikum laugardagsins syngur Skálholtskórinn undir stjórn Jóns Bjarnasonar og flytur verkúr óperunni um Ragnheiði en í ár eru liðin 380 ár frá fæðingu hennar. Hátíðarræðuna flytur Þórunn Valdimarsdóttir, rithöfundur og sagnfræðingur.


Frá föstudegi til mánudagsmorguns mun Ísleifsreglan vera starfandi og leiða tíðarsöng með morgunsöng og kvöldbæn. Hægt verður að fá gistingu í Skálholtsskóla og allur viðgjörningur er þar líka, málsverðir og kaffi alla helgina.


Skálholtsvinir eru hvattir til að fjölmenna til hátíðarinnar og taka þátt í einu, mörgu eða öllu, á einn eða annan hátt. Skráning í gistingu er hjá Sigurbjörgu í Skálholti í hotelskalholt@skalholt.is og í síma 486 8870. Skráning í pílagrímagöngurnar eru á viðburðarsíðunum hér á heimasíðu Skálholts.


Sérvaldar færslur
Nýjustu færslur
Safnið
Stikkorð
Samfélagsmiðlar
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square