Vegleg Skálholtshátíð 2023 og kirkjan 60 ára

Skálholtshátíð 2023 verður aukin að dagskrá miðað við síðustu ár vegna afmælisársins. Sextíu ár verða liðin frá vígslu Skálholtsdómkirkju og verður haldið uppá það með því að ljúka mjög miklum endurbótum utan og innandyra í kirkjunni. Í anda íslenskra afmælisára verða önnur hús á staðnum lagfærð og færð í skálholtskirkjuhvíta veggi og dökkgráu þökin. Dagskráin verður vegleg og hefst hún á Þorláksmessu á sumar fimmtudaginn 20. júlí með morgunmessu við Þorlákssæti. Fimmtudag og föstudag verða málþing og fræðandi göngur um Þorláksleið. Fagnað verður útgáfu Fornleifastofnunar á rannsóknunum í Skálholti. Stefnt er að málþingum um samband Skálholts við Niðarós og byggt á nýlegum rannsóknum og samstarfi milli hinna fornu höfuðstaða. Stefnt er að málþingi um stafrænan veruleika og gervigreind í siðferðilegu ljósi. Tónleikar verða flesta daga, pílagrímagöngur verða gengnar til Skálholts og hámessan verður sunnudaginn 23. júlí kl. 14. Hátíðardagskrá verður eftir veglegt kirkjukaffi og eigum við von á hátíðlegum ávörpum og mikilli tónlist. Ísleifsreglan stefnir að því að halda uppi tíðarsöng kvölds og morgna alla hátíðardagana. Allt Skálholtsfólk er hvatt til að taka frá þessa daga, fimmtudag 20. júlí til sunnudags 23. júlí. Hótel Skálholt verður frátekið fyrir gesti og þarf að taka það fram við skráningu. Yfirskrift Skáholtshátíðar 2023 hefur ekki verið ákveðin en þangað til verður unnið út frá mósaíkmynd Nínu Tryggvadóttur: "Komið til mín."