Tónleikar á degi herra Jóns Arasonar 7. nóv.


Okkar einstaki tenor, Gissur Páll Gissurarson, mun syngja á tónleikum á degi Jóns Arasonar laugardaginn 7. nóvember nk. kl. 16 og fiðluleikarinn Páll Palomares spilar ásamt Jóni Bjarnasyni organista. Hugleiðingu flytur sr. Kristján Björnsson, Skálholtsbiskup. Tónleikarnir eru í streymi á fésbókarsíðu Skálholts og eru öllum opnir en því miður getum við ekki boðið fólk velkomið í kirkjuna vegna átaks þjóðarinnar gegn kórónuveirunni. Við erum öll saman í því en það er hreinlega ekki hægt að færa þennan minningardag Jóns biskups til í dagatalinu.

Þess verður sérstaklega minnst að Jón biskup Arason var tekinn af lífi í Skálholti 7. nóvember 1550 ásamt tveimur af sonum sínum, Ara lögmanni og sr. Birni. Núna eru því liðin 470 ár frá þessum atburði sem markaði djúp spor í Íslandssöguna.


Á hverju ári hefur Skálholtskórinn komið saman og sungið tónleikana og í mörg ár hefur söngmálastjóri Þjóðkirkjunnar, Margrét Bóasdóttir, kallað saman kirkjukóra af Suðurlandi til að lyfta þessum degi með miklu tónleikahaldi. Í ljósi aðstæðna verður þessi viðburður á annan veg en það er ósk Skálholtsstaðar og kirkju að fólk taki þátt í þessu með því að horfa á og njóta á skjánum heima.

Sérvaldar færslur