Opið alla daga 9 - 18Í Skálholti er opið alla daga milli kl. 9 og 18. Býður kirkjan allt áhugasamt fólk velkomið á staðinn til að skoða dómkirkjuna eða eiga þar kyrrðarstund. Einnig er opið á minjasýningu í kjallara kirkjunnar, undirgöngin frá miðöldum, fornminjasvæði sunnan við kirkju og Þorláksbúð norðan við kirkjuna. Öllum er hjartanlega velkomið að ganga um staðinn og skoða minjar og merk kennileiti. Má þar nefna Skólavörðuna, Þorlákssæti, minnisvarða um Jón biskup Arason, Biskupstraðir og Fornastuðul, Virkishól, Staupastein, Vestari traðir, Þorláksbrunn, Kyndluhól og Íragerði.

Á þessum stöðum eru merkingar með QR-kóða inná heimasíðu Minjastofnunar Íslands með upplýsingum. Núna eru fáir á ferli og auðvelt að gæta allra varúðarráðstafana vegna Covid19 veirunnar og fara í einu og öllu eftir fyrirmælum Almannavarna.

Á bílastæðinu eru hleðslustöðvar fyrir rafbíla með rafmagn á kostnaðarverði. Bæði er hægt að nota lykil frá Ísorku og greiðslukort. Snyrtingar eru í kjallara Skálholtsskóla og inni í Skálholtsskóla þar sem einnig er hægt að fá allar veitingar til kl. 17 á daginn og lengur ef pantað er í síma 486 8870, en auk þess gistingu, bæði uppábúin rúm og svefnpokapláss.

Einnig er hægt að fá leiðsögn um þessa merku sögustaði og í kirkjunni sjálfri sem geymir afar merkileg verk listamannanna Gerðar Helgadóttur og Nínu Tryggvadóttur, auk sögulegra minja í innréttingum og gripum frá fyrri öldum. Slíka staðarskoðun þarf helst að panta með smá fyrirvara.

Hægt er að gefa til Verndarsjóðs Skálholtsdómkirkju og kaupa bænakerti í kertastjaka Áheitasjóðs Þorláks helga en báðir þessir sjóðir styrkja verndun og endurnýjun kirkjugripa og búnaðar, m.a. til kaupa á nýrri klukku, búnaði fyrir bókasafn kirkjunnar og endurnýjunar á lýsingu kirkjunnar. Í kirkjunni og inni í Skálholtsskóla er hægt að kaupa bækling um listglugga Gerðar Helgadóttur og rennur allt söluvirði til kirkjunnar.

Í forkirkjunni og andyri skólans eru sprittbrúsar og grímur gestum að kostnaðarlausu. Tekið er á móti bílastæðagjaldi og aðgangseyri að safninu sem er einfalt gjald kr. 750,- fyrir hvern bíl með farþegum. Það er annað hvort greitt í bauk í kirkjunni eða í veitingasal Skálholtsskóla.

Sérvaldar færslur
Nýjustu færslur
Safnið
Stikkorð
Samfélagsmiðlar
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square