Pílagrímagöngur til Skálholtshátíðar 2021

Lengsta pílagrímagangan til Skálholtshátíðar í ár er frá Hólum í Hjaltadal en einnig er gengið frá Reynivöllum í Kjós og að lokum frá Þingvöllum. Lagt verður af stað frá Reynivallakirkju fimmtudaginn 15. júlí. Sú ganga sameinast göngunni frá Þingvöllum sem hefst laugardaginn 17. júlí kl. 9 við Þingvallakirkju.
Sunnudaginn 18. júlí heldur Þingvallagangan áfram og er lagt af stað á pílagrímaleiðinni við Neðra Apavatn kl. 9 og gengið til messu á Skálholtshátíð. Við heimtröðina að Skálholti mun þessi ganga sameinast göngunni frá Hólum í Hjaltadal sem gengur þennan síðasta dag frá Bræðratungukirkju, svokallaða Ragnheiðarleið.
Hægt er að taka þátt í göngunum á hvaða degi sem er eða alla daga. Margir slást í för síðasta daginn á öðrum hvorum staðnum og ganga til hátíðarmessu. Tekið er á móti pílagrímum í upphafi messunnar en þeir ganga berfættir inn kirkju undir pílagrímasálminum Fögur er foldin.

Sérstök viðburðarsíða er fyrir gönguna milli biskupsstólanna á þessari heimasíðu ( https://www.skalholt.is/events/pilagrimaganga-holar-skalholt )og einnig eru viðburðarsíður á fésbók. Öllum er velkomið að taka þátt í göngunum og það er einnig hægt að heita á göngumenn. Best er að skrá sig á viðburðarsíðunni eða hafa samband við sr. Elínborgu Sturludóttur í síma 847 1475 vegna Þingvallagöngunnar, sr. Örnu Grétarsdóttur í síma 865 2105 vegna Reynivallagöngunnar og sr. Dag Fannar Magnússon í síma 773 6341 vegna löngu göngunnar frá Hólum í Skálholt. Þegar þetta er skrifað er Dagur Fannar í Hvítárnesi og genur fimmtudaginn 15. júlí úr Hvítárnesi í Fremstaver, föstudaginn 16. júlí úr Fremstaveri í Haukadalskirkju, laugardaginn 17. júlí úr Haukadalskirkju í Bræðratungukirkju og sunnudaginn 18. júlí úr Bræðratungukirkju í Skálholt með ferju á Tungufljóti.

Pílagrímar geta gist í Skálholti á meðan húsrúm leyfir og pantað það á hotelskalholt@skalholt.is eða hringt í síma 486 8870. Myndin hér við hliðina er úr elsta skálanum á Hveravöllum þar sem Dagur Fannar, Kristján og Guðrún Helga héldu kvöldmessu með fjórum Svisslendingum sem óvænt urðu hluti af samfélaginu um Guðs borð.