Nýir rekstraraðilar bjóða fólk velkomið á veitingastaðinn og til gistingar í Skálholti


Bjarki Sól og Gunnhildur eru tekin við allri veitinga- og gistiþjónustu í Skálholtiog eru þau boðin velkomin til starfa. Sjálf bjóða þau alla velkomna og bjóða núna um helgina uppá sérstakt kvöldverðartilboð. Þau hafa starfað sem hótelstjórar í stuttan tíma hjá fyrri rekstraraðila sem var Sigurbjörg Bjarney Ólafsdóttir en hún er frumkvöðull í því að annast þennan rekstur með samningi við stjórn Skálholts frá síðasta ári og fylgja henni þakkir fyrir frábært samstarf og góða þjónustu.


Bjarki og Gunnhildur eru frændsystkin og koma að rekstrinum saman. Það er haldið uppá daginn í dag með því að taka á móti 60 manns í hádeginu en hópar frá sama fyrirtæki hafa komið tvisvar áður og fengið frábæran tveggja rétta matseðil á undraverðum stuttum tíma. Salurinn er dekkaður upp og tilbúinn fyrir næsta hóp.

Bjarki heitir fullu nafni Bjarki Þór Ingigerðar- og Sólmundarson og Gunnhildar fullt nafn er Gunnhildur Helga Gunnarsdóttir. Lögð verður áhersla á einstaka matarupplifun með mest allt hráefni úr næsta nágrenni. Bjarki er þekktur fyrir hönnun á veislumáltíðum og verður lagt mikið uppúr því að fólk njóti góðrar þjónustu á hinum fornhelga stað.


Munu þau einnig annast alla veitinga- og gistiþjónustu við námskeið og fyrirlestra, málþing og námskeið, fundi og ekki síst kyrrðardaga og aðra rótgróna dagskrá sem verið hefur í Skálholti um áratugaskeið, auk ýmissa viðburða. Þau hjálpa fólki að skipuleggja dvöl og samveru í Skálholti en staðurinn hefur þótt henta vel fyrir minni hópa sem halda vilja fundi, málþing, námskeið eða vinnufundi í Skálholti en á staðnum eru nokkrir salir og samverustaðir sem eru vel tækjum búin og ljósleiðarinn sér um gott samband og fjarfundi.


Fyrir gesti og gangandi er einstakt að snæða í matsalnum og undir garðskálanum eða í garðinum þar fyrir utan þar sem sést svo vel til Skálholtsdómkirkju. Gistingin er fjölbreytt en auk gistingar í fínum herbergjum í Skálholtsskólanum er gisting í Skálholtsbúðum og í sumarhúsum þar auk einbýlishússins Selið með fimm herbergjum, potti og palli.


Opið er alla daga og hægt er að panta kvöldverð og veisluþjónustu auk tilboða sem þau hafa sett upp með tilboði í veislumáltíðir um helgar.

Sérvaldar færslur
Nýjustu færslur
Safnið
Stikkorð
Samfélagsmiðlar
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square