top of page

Nýársguðsþjónusta í Þingvallakirkju. Takk fyrir árið 2020.


Fyrir hönd Skálholts þakkar vígslubiskup fyrir árið sem er að líða með allri þeirri reynslu og lærdómi sem því fylgdi en líka mikilli blessun Guðs. Næsta streymi í Skálholtsprestakalli verður í Þingvallakirkju á nýársdag kl. 14 en það er kirkja Þingvallasóknar og allrar þjóðarinnar í einum helgasta þjóðgarði okkar. Það verður beint streymi og öllum opin á þann hátt á vefnum inná Fb. síðu Þingvallakirkju. Söng og tónlist annast Björg Þórhallsdóttir, sópransöngkona, Björg Brjánsdóttir, falutuleikari, og Hilmar Örn Agnarsson, organisti. Sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup, þjónar fyrir altari og prédikar.


All nokkrar áramótaguðsþjónustur eru í umdæmi Skálholts í streymi á heimasíðum hverrar kirkju. Þar hafa prestar, kirkjukórar, organistar, tónlistarfólk og starfsfólk á hverjum stað lagt mikla alúð í lofgjörð, boðun og helga þjónustu til styrkingar í iðkun trúarinnar hjá samfélagi fólks sem trúir á Jesú Krist.

Sumt af því efni er heimilislegt af því að það er tekið upp eða streymt beint frá guðshúsum sem ekki hefur verið hægt að sækja með reglulegu helgihaldi. Það er mikill missir sem verið að ávarpa þar og mæta. Margar þessar stundir eru vel útfærðar tæknilega og hafa sumar sóknir lagt verulega fjármuni í gerð myndbanda og útsendinga með færustu tæknimönnum. Athöfnum hefur verið steymt og hefur það komið sér vel á viðkvæmum kveðjustundum við útfarir en líka verið nýtt við gleðina þegar verið er að skíra og jafnvel gifta. Fermingarmessur urðu einstaklega margar enda öllum hópum skipt upp í fáein fermingarbörn í hverri athöfn. Það sem aldrei verður í streymi er sálgæsla prestanna og vakt þeirra sem hefur reynt verulega á allt árið. Einsemd fólks hefur víða verið mikil og erfið. Prestar, prófastar, djáknar og starfsfólk safnaðanna hafa hringt í fólk og verið í samskiptum á öllum miðlum og það hefur líka aukist að prestar standi fyrir spjalli á hlaðvarpi og meira að segja Tik-tok, hvað sem það annars þýðir. Það reynir á tengslin þegar samskiptin eru takmörkuð í nauðsynlegum og áríðandi takmörkunum sóttvarnalæknis og fær orðið almannavarnir dýpri merkingu á þessu ári. Samhljómurinn í samfélagi okkarhefur verið góður og þakkarverður.

Innan kirkjunnar hefur verið lögð áhersla á samstarf allra trúfélaga veraldar vegna sameiginlegra aðstæðna okkar bæði í heimsfaraldrinum og í loftslagsmálum. Það kom meðal annars fram með heimsþinginu í Skálholti í byrjun október með fulltrúum allra stóru trúabragða heims og nánu samstarfi við Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna, Ríkisstjórn Íslands og samstarfsnefnd trúfélaga á Íslandi. Lögð er áhersla á grænan bata þegar aðstæður batna og að engin manneskja eða samfélög verði skilin eftir í úrvinnslu heimsfaraldurs; að við förum ekki í sama farið en þökkum fyrir að hafa fengið þessa reynslu til að endurmeta allt okkar atferli og venjur til góðs fyrir náttúruna og jörðina sem okkur er falið af Guði að gæta.


Heima í Skálholti voru bæði aftansöngur á aðfangadag og hátíðarguðsþjónusta á jóldag. Þessar guðsþjónustur eru báðar aðgengilegar og hafa verið vel sóttar í nýjustu merkingu þess orðs. Organistinn okkar, Jón Bjarnason, hafði veg og vanda að upptökum og fékk hljóðmenn með sér, en hann leikur líka á orgelið og stjórnar Skálholtskórnum, sem syngur við báðar þessar guðsþjónustur. Skálholtsbiskup annaðist aftansönginn og sr. Egill Hallgrímsson, sóknarprestur í Skálholti, annaðist hátíðarguðsþjónustuna á jóladag. Þá er ennþá aðgengileg aðventustund með vekjandi hugvekju Þóru Karítas Árnadóttur, leikara, rithöfundar, þáttargerðakonu og guðfræðings en allt þetta er á fb síðu Skálholts.

Sérvaldar færslur
Nýjustu færslur
Safnið
Stikkorð
Samfélagsmiðlar
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page