top of page

Messufall um áramót í gjörvöllu Skálholtsprestakalli


Hátíðarguðsþjónusturnar sjö voru vel sóttar á aðfangadag, jóladag og annan í jólum. Það er þakkarvert að hafa fengið að halda hátíðina með almennri guðsþjónustu svo víða. En því miður verða allir að lúta höfði gagnvart skæðri útbeiðslu veirunnar í heimsfaraldrinum og falla því niður hátíðarguðsþjónustur niður á gamlársdag í Haukadalskirkju og Skálholtsdómkirkju og á nýársdag í Torfastaðakirkju og Þingvallakirkju. Samkomutakmarkanir hafa að vísu ekki verið hertar en smitum fjölgar ógnvænlega og fólki fjölgar sem situr í sóttkví ýmist vegna veikinda eða í sjálfskipaðri sóttkví á heimilinu. Skálholtsbiskup tekur undir með Íslandsbiskupi, hvetur til varkárni og biður sóknarbörnin í umdæmi Skálholts að huga vel að náunga sínum og gæta þess sem mest að virða aðstæður af fullri alvöru. Standa skal með sóttvarnarlækni og virða tilmæli almannavarna af fullri einurð.

Hægt verður að koma í Skálholtsdómkirkju yfir daginn þessa daga alla en kirkjan, safnið í kjallara og Þorláksbúð eru opin alla daga ársins milli kl. 9 og 18. Þar er einnig kertastandur til að tendra bænakerti og leggja um leið framlag til Áheitasjóðs Þorláks helga Þórhallssonar eða leggja áheit í bauk Verndarsjóðs Skálholtsdómkirkju. Það sanna dæmin að áheit hafa reynst vel í stóru og smáu enn sem fyrr og má einnig benda á allar sóknarkirkjurnar þar sem ræturnar liggja hjá hverjum og einum.

Skálholt óskar íbúum landsins árs og friðar á nýju ári og þakkar ómetanlegan stuðning og samstöðu í langvinnum faraldri og ýmsum þrengingum sem því hafa fylgt, en auk þess missi og sorg. En það er einsog segir í fagnaðarerindinu um Jesú Krist að kærleikurinn mun sigra og hann sigrar allt. Gleðilegt nýtt ár!

Sérvaldar færslur
Nýjustu færslur
Safnið
Stikkorð
Samfélagsmiðlar
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page