top of page

Messan færist til tvö og er það kantötumessa


Kantata Johann Sebastian Bach ,,Nach Dir, Herr, verlanget mich" BWV 150 verður flutt í messu í Skálholtsdómkirkju sunnudaginn 9. júlí kl. 14. Færist þá messan, sem venjulega er kl. 11 til tvö. Það er sami tími og síðasta sunnudag. Sr. Axel Á. Njarðvík þjónar fyrir altari, ásamt sr. Kristjáni Björnssyni, vígslubiskupi, sem prédikar.


Kantatan er samin út út frá Davíðssálmi 25, vers 1-2, "Til þín, Drottinn, hef ég sál mína, Guð minn, þér treysti ég, lát mig eigi verða til skammar, lát eigi óvini mína hlakka yfir mér." Flytjendur eru María Konráðsdóttir, sópran, Benedikt Kristjánsson, tenór, og Oddur Arnþór Jónsson, bassi, Bachsveitin í Skálholti og Skálholtskórinn undir stjórn Jóns Bjarnasonar, organista. Stjórnandi kantötunnar er Benedikt Kristjánsson.


Eftirfarandi tónlistarfólk kemur fram: María Konráðsdóttir - sópran, David Erler - kontratenór, Benedikt Kristjánsson - tenór, Oddur Arnþór Jónsson - bassi, Pétur Björnsson - konsertmeistari, Guðbjartur Hákonarson - fiðla, Geirþrúður Anna Guðmundsdóttir - selló, Brjánn Ingason - fagott, Jacek Karwan - kontrabassi, og Bjarni Frímann Bjarnason - orgel.


Á veitingastaðnum Hvönn í Skálholti er hægt að fá veitingar allan daginn og gisting er í boði á Hótel Skálholti en bæði Hvönn og Hótelið er í byggingu Skálholtsskóla. Bent er á að Sumartónleikarnir í Skálholti taka á móti frjálsum framlögum til tónlistarflutnings.


Með þessari messu minnist sr. Kristján 34 ára vígsluafmælis til prestsþjónustu 9. júlí 1989 á Hólum í Hjaltadal og minnist um leið að í júlí eru liðin fimm ár frá biskupsvígslunni í Skálholti.

Sérvaldar færslur
Nýjustu færslur
Safnið
Stikkorð
Samfélagsmiðlar
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page