Menningardagskrá á degi Jóns Arasonar 7. nóvember


Árlega er þess minnst í Skálholti að 7. nóvember 1550 lét herra Jón Arason lífið með aftöku við Biskupstraðir í Skálholti ásamt sonum sínum tveimur, Ara og sr. Birni. Sunnudaginn 7. nóvember 2021 verður menningardagskrá í Skálholtsdómkirkju með kórsöng, orgelleik og hugvekju, bæn og blessun. Lögð verður áhersla á áhrif herra Jóns og afkomenda hans en þess má geta að í dagskrá og erindi Hildar Hákonardóttur um biskupsfrúr í Skálholti í sumar kom fram að margar lútherskar biskupsfrúr fyrri alda eru beinir afkomendur Jóns Arasonar.


Dagskráin hefst kl. 16. Organisti er Jón Bjarnason og stjórnar hann einnig Skálholtskórnum sem syngur kórverk. Hugvekju flytur sr. Kristján Björnsson, Skálholtsbiskup. Dagskránni lýkur með blysför frá kirkjunni að minnisvarða herra Jóns Arasonar. Gengið verður eftir Þorláksleiðinni nýju og á þeim kafla hennar sem lögð var í sumar frá kirkjugarðinum að minnisvarðanum. Á þessari leið er stutt áning ofan við Fornastuðul skammt frá Biskupströðum þar sem sér yfir þann stað er herra Jón setti búðir sínar niður og sat um staðinn árið 1548. Leiðin frá kirkju að minnisvarða er um 350 metrar og því um 4 mín ganga aðra leið. Þessi hluti Þorláksleiðar er núna öllum fær, einnig á hjólastól nánast upp að minnisvarða, þökk sé veglegum styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.Eftir athöfn og blysför verður boðið uppá heitt súkkulaði og köku í Skálholtsskóla, Veitingastaðnum Hvönn. Hvönn er rekin af Bjarka Sól og Gunnhildi.


Allir eru hjartanlega velkomnir. Ekki er nauðsynlegt að bóka sig en gott að láta vita í síma 4868870 (og sérstaklega ef um hóp er að ræða) svo það verði til nóg af heitu súkkulaði!


Fyrir þau sem ekki komast seinnipartinn má geta þess að messa er í Skálholtsdómkirkju kl. 11 og verður þá tæpt á sögu dagsins í prédikun og bæn.


Sérvaldar færslur