top of page

Lokamessa fyrir lokun dómkirkjunnar fram að páskum


Lokamessa verður í Skálholtsdómkirkju sunnudaginn 8. janúar kl. 11 og er það síðasta messa fyrir lokun kirkjunnar fram að páskum. Lokamessan er helguð birtingarhátíðinni sem oftast er kölluð þréttándinn, síðasti dagur jóla. Það er dagur vitringanna því með þeirra lofgjörð varð ljóst hver hinn nýfæddi Jesús var. Við syngjum síðustu jólalögin í bili enda var ekki hægt að koma við messum á aðfangadag, jólanótt eða jóladag.


Kirkjan fær algjöra endurnýjun að innan með viðgerðum, málningu, nýjum ljósum og raflögnum, brunavarnarkerfi, nýjum ofnum og hreinsun á orgeli. Vonast er til að viðgerðum verði lokið í tæka tíð fyrir páska. Verður hún lokuð fyrir heimsóknir hópa og ferðafólks, og athafnir og annað helgihaldi fellur niður á meðan framkvæmdir standa yfir. Er fólki bent á aðrar kirkjur prestakallsins á meðan.


Í lokamessunni mun Skálholtskórinn syngja undir stjórn Jóns Bjarnasonar, organista, og sr. Dagur Fannar Magnússon, sóknarprestur, og sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup, munu þjóna og prédika.

Vonum við að sem flestir komi og fái um leið fréttir af framkvæmdunum. Markmið þessara viðgerða er að ljúka því mikla endurbótastarfi sem staðið hefur yfir til undirbúnings fyrir 60 ára afmæli kirkjunnar en því verður fagnað á Skálholtshátíð 20. - 23. júlí 2023.


Árið 2018 lauk viðgerðum á listgleri Gerðar Helgadóttur og altarismynd Nínu Tryggvadóttur.

Árið 2022 lauk viðgerðum á ytra byrði kirkjunnar með málningu og nýjum steinflísum, auk endurnýjunar á klukkuverki og nýrri danskri klukku. Safnað er fyrir einstökum verkhlutum í gegnum Verndarsjóð Skálholtsdómkirkju og eru gefendur margir og rausnarlegir.

Og enn er gefið í þær framkvæmdir sem núna eru að hefjast eftir lokamessuna. Hægt er að leggja lið með framlagi í Verndarsjóðinn (banki 0152-15-380808 og kt. 451016-1210)

Sérvaldar færslur
Nýjustu færslur
Safnið
Stikkorð
Samfélagsmiðlar
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page