Kyrravika og helgihald um páska í nýrri Kóvíd19


Íslendingar standa núna frammi fyrir því að taka af einurð á sig nýjar aðgerðir í sóttvörnum vegna nýrra afbrigða veirunnar í þessum makalausa heimsfaraldri. Fullbókað var orðið á kyrrðardaga í kyrruviku en þeir falla því miður niður annað árið í röð. Ástæða þess er að við höfum getað haldið kyrrðardaga í vetur samkvæmt reglugerð um lýðskóla og því verðum við að fylgja framhaldsskólum þegar þeir loka. Þessi nýju afbrigði veirunnar hafa nú valdið smiti í skólum og á meðal nemenda og við þurfum að vernda börnin okkar.

Eftirvænting var í loftinu hjá kórfólki og sóknarbörnum að fá loksins hátíðarguðsþjónustu sína um páska og messur um dymbyldagana. Messufallið í fyrra er í ferslu minni. Í umdæmi Skálholts er víða verið að ákveða breytingar og skipuleggja guðsþjónustur í streymi og lestur úr píslasögunni. Mesta athyglin er samt á fermingarnar núna. Í sumum prestaköllum í umdæminu hafa heilu unglingadeildir í grunnskólum verið settar í sóttkví og þar hefur fermingum í sumum kirkjum verið aflýst, s.s. í Háteigskirkju og í Laugardalnum í Reykjavík. Á hverjum stað er brugðist við af útsjónarsemi og allt er reynt til að fermingarbörn fái að efna sín heit og eiga hátíðlegan dag.

Hér í Skálholti verður skoðað hvort hægt verður að streyma helgihaldi á vef kirkjunnar líkt og víðar og verður það auglýst síðar. Fermingar eru víða ekki fyrr en eftir þessar þrjár vikur sem nýjustu sóttvarnaraðgerðir taka til. Lögð verður áhersla á það í kirkjunni allri að hægt verði að halda úti þjónstu við athafnir, útfarir, hjónavígslur, fermingar og skírnir. Til að hægt verði að miða við 30 manna heildarfjölda í kirkjunni hverju sinni þurfa allir að skrá sig en ekki er lögð skylda á söfnuði að númera sæti. Einnig er lögð mikil áhersla á persónulegar sóttvarnir og grímur en samskipti verði án handabanda eða faðmlaga. Gildir það einnig um bólusetta því þau geta borið á milli.

Telja má líklegt að með þessum hörðu aðgerðum í stuttan tíma verði hægt að minnka líkur á stórri bylgju í faraldrinum hér á landi á þessum viðkvæma tíma sem líður þangað til bólusetningin verður almennari.


Skálholtsbiskup vill hvetja til þess að fólk biðji hvert fyrir öðru og einnig fyrir sóttvarnaryfirvöldum og ríkisstjórn og biðji þess að það ríki eining hjá þjóðinni um allt sem þarf að gera. Einnig hvetur biskup til að beðið verði fyrir börnum og ungmennum, þeim sem eru í sóttkví og einangrun, fyrir sjúkum og þeim sem hafa áhyggjur eða kvíða. Umfram allt eru allir hvattir til að biðja fyrir því að við höldum sönsum og stjórn á aðstæðum okkar á óvissutíma og gleymum ekki að hvílast og styrkja hendur okkar til allra góðra verka í framtíðinni.


Guð gefi öllum uppbyggilegan lokatíma á föstunni og gleðilega páska þegar hátíðin gengur í garð.

Að lokum má geta þess að Skálholtskirkja verður opin alla daga frá 9-18 og hægt að kaupa sér kerti og kveikja á því við bænastandinn sem Áheitasjóður Þorláks helga hefur sett upp í kirkjunni. Minjasýningin í kjallaranum, Þorláksbúð og minjasvæðið við kirkjuna eru opin á sama tíma. Í skoðun og heimsóknum eru allir hvattir til að gæta að hreinlæti og virða fjarlægðarbil ef fleiri fjölskyldur eru á ferð.

Sérvaldar færslur
Nýjustu færslur
Safnið
Stikkorð
Samfélagsmiðlar
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square