Kyrrðardagar á aðventu 1. - 4. desember


Kyrrðardagar verða á aðventunni í Skálholti og eru allir velkomnir. Lögð verður sérstök rækt við matseðilinn og hluta matmálstímanna verður fastað uppá hvítt með hvítmeti og alveg yfir í alhvítan rétt á diski. Íhuganir eru á hverjum degi, helgihald með tíðasöng kvölds og morgna, viðtöl við prest, gönguferðir með íhugun á Þorláksleið og góðri hvíld á endurnýjuðu Hótel Skálholti. Jón Bjarnason heldur tónleika með orgeltónlist aðventunnar. Veitingastaðurinn Hvönn í Skálholti annast góðar veitingar frá hendi Bjarka Sól. Hvern morgun verða þátttakendur vaktir með söng svo er einnig frjáls tími. Hjón eru boðin sérstaklega velkomin með afslætti á gistingunni sem einnig er í boði ef vinir eða systkin vilja gista saman í herbergi. Annars er hver með sitt herbergi. Athyglin er öll á innihald aðventunnar og hvernig við væntum komu Drottins. Er það góður undirbúningur fyrir jólin að draga sig afsíðis í hvíld, í hugun og helgihaldi, auk útiveru á sögustaðnum Skálholti. Helgihaldið fer fram í Skálholtsdómkirkju að mestu en hún er móðir allra guðshúsa á Íslandi. Flestar bænir kvölds og morgna fara fram við altarið í Norðurstúku kirkjunnar en það altari er úr Brynjólfskirkju sem reist var árið 1650. Á aðventunni í ár verður sérstakri athygli beint að Ragnheiði Brynjólfsdóttur sem móður er fékk ekki að eiga barni sitt en mest af öllu er sjónum beint hjálpræðinu sem kom í heiminn og að móður Guðs, Maríu mey, á þessum síðustu vikum meðgöngu hennar. Leiðbeinandi er sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup.

Nánari upplýsingar, dagskrá og þátttökugjald mun koma betur fram á skráningarsíðunni sem sett verður upp hér á heimasíðu Skálholts sem viðburður.

Myndin sem fylgir með er af veggspjaldi eftir danska listamanninn Jim Lyngvild.

Sérvaldar færslur
Nýjustu færslur
Safnið
Stikkorð
Samfélagsmiðlar
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square