Hleðslustöðvarnar opna nýja möguleika


Í haust lauk uppsetningu á fjórum hleðslustöðvum fyrir bifreiðar á bílastæðinu í Skálholti. Uppsetning þeirra var á hendi Skálholts en kveikjan að þessum stöðvum er ákvörðun kirkjuráðs um að koma slíkum stöðvum upp sem víðast við kirkjur og þjónustumiðstöðvar kirkjunnar. Það sem hratt þessari framkvæmd af stað var veglegur styrkur frá Orkusjóði Orkustofnunar. Stöðvarnar eru fjórar og eru allir velkomnir en rétt er að minna á að Skálholtsdómkirkja er opin alla daga ársins milli 9 og 18 og gisting og veitingar eru í Skálholtsskóla. Verktakinn, Þorvarður Kristjánsson, annaðist uppsetninguna og gaf málningu á öll bílastæðin. Þess má geta að Þorvarður er sonur sr. Kristjáns Einar Þorvarðarsonar sem lengst af var sóknarprestur í Hjallaprestakalli í Kópavogi en féll frá á besta aldri.


Skálholtsbiskup er þakklátur öllum sem komu að verkinu og hefur samstarfið við Ísorku verið mjög gott. Hleðslustöðvarnar eru frá Ísorku og dugar bæði lykill frá þeim og hvaða greiðslukort sem er. Rafmagnið er selt á kostnaðarverði og því er mjög hagstætt að stoppa í Skálholti eða gista, njóta útivistar, ganga til kirkju eða koma í veitingastaðinn í Skálholtsskóla. Þar er einnig hægt að fá göngukort en í sumar verður haldið áfram með Þorláksleið og fleiri gönguleiðir um Skálholtsjörðina. Í sumar verður einnig unnið að frekari stígagerð, ræsagerð og merkingum en leiðirnar verða þá líka stikaðar betur.

Samkvæmt stefnu Skálholts er stöðugt unnið að betri þjónustu við gesti og gangandi en líka við þau sem koma í gistingu, á ráðstefnur eða námskeið. Í vetur hefur verið góð þátttaka í kyrrðardögum enda hefur verið unnið náið með sóttvarnarlækni með allar ráðstafanir. Nýlega er lokið velheppnuðu námskeiði um biblíulega íhugun og síðar í febrúar eru kyrrðardagar kvenna og þannig heldur dagskráin áfram. Nánar um það hér á heimasíðunni undir skráningarsíðurnar Viðburðir.

Verið hjartanlega velkomin í Skálholt.

Sérvaldar færslur
Nýjustu færslur
Safnið
Stikkorð
Samfélagsmiðlar
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square