Helgihald um jólin í streymi og opin kirkja á daginn


Guðs kristni í heimi býr í breyttum heimi frá ári til árs. Núna tökum við öll "höndum saman" um sóttvarnir og verða hátíðarguðsþjónustur ekki opnar á staðnum. Við ætlum að standa okkur öll á síðustu metrum í baráttunni við heimsfaraldurinn, bæði vegna okkar og náunga okkar í öllum löndum. Þess í stað verður öll hátíðarguðsþjónusta á vefnum hér í mynd og með góðum hljómi. Guðsþjónustu verður streymt á heimasíðunni og á fésbókarsíðu Skálholts. Þá verður hátíðarguðsþjónustu streymt frá Þingvallakirkju á jóladag kl. 14. Allar þessar guðsþjónustur eru einnig aðgengilegar á Youtube myndbandi Skálholtsstaðar og hægt að fletta því upp þar ef fólk vill fara stystu leiðina. Einnig er athygli vakin á því að Skálholtsdómkirkja er opin alla daga 9 - 18 og líka á hátíðinni en þau sem koma í helgidóminn eru beðin að fara að öllu með gát ef aðrar fjölskyldur eru á sama tíma. Á sama tíma er einnig opið í Þorláksbúð og minjasýningu í kjallara kirkjunnar.


Aftansöngur á aðfangadagskvöld verður kl. 18 í streymi. Skálholtskórinn syngur undir stjórn Jóns Bjarnasonar dómorganista og sr. Kristján Björnsson, Skálholtsbiskup, þjónar fyrir altari og prédikar.


Hátíðarguðsþjónusta á jóladag verður kl. 14 í streymi. Skálholtskórinn syngur undir stjórn Jóns Bjarnasonar dómorganista og sr. Egill Hallgrímsson, sóknarprestur í Skálholtsprestakalli, þjónar fyrir altari og prédikar.


FELLUR NIÐUR: Hátíðarguðsþjónusta verður í Þingvallakirkju á jóladag kl. 14 í beinni útsendingu á streymi. Björg Þórhallsdóttir syngur og Hilmar Örn Agnarsson leikur á orgelið. Einleikari á flautu er Björg Brjánsdóttir. en sr. Kristján Björnsson, Skálholtsbiskup, þjónar fyrir altari og prédikar.Það eru allir velkomnir í þessar guðsþjónustur allar á vefnum og við mælum með því að fólk hafi góða hátalara vegna jólasálmanna og hátíðarsöngva sr. Bjarna Þorsteinssonar en einnig til að heyra heilnæman boðskap jólanna í lestrum, bænum og boðun fagnaðarerindisins.


Guð gefi þér og þínum öllum gleðileg jól!

Sérvaldar færslur
Nýjustu færslur
Safnið
Stikkorð
Samfélagsmiðlar
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square