top of page

Góðir gestir á umhverfisráðstefnu í Skálholti og á Hringborði Norðurslóða í Reykjavík


Forseti Lúterska heimssambandsins, dr. Panti Filibus Musa, erkibiskup Nígeríu, heimsækir Ísland til að taka þátt í umhverfisráðstefnu í Skálholti og taka þátt í málstofu sem kirkjan stendur fyrir á Hringborði norðurslóða, Arctic Circle Assembly, með góðum samstarfsaðilum. Ásamt honum kemur Grænlandsbiskup, Paneeraq S. Munk, til Skálholts að taka þátt í þessu brýna verkefni. Helstu samstarfsaðilar að ráðstefnunni eru Arctic Circle, Stofnun dr. Sigurbjörns Einarssonar, Guðfræðistofnun HÍ, Landvernd og fulltrúar kristni og annarra trúarbragða. Ætlunin er að bera saman viðhorf og reynslu frá Grænlandi, Íslandi og Nígeríu, frá hopandi jökli til þornandi eyðimerkur, í ljósi sjálfbærnimarkmiða Sameinuðu þjóðanna og hvernig hægt er að styðja við breytt viðhorf og nauðsynleg viðbrögð við neikvæða þróun loftlagsmála með guðfræði vonarinnar. Yfirskriftin er: BISHOPS FROM GREENLAND, ICELAND AND NIGERIA REFLECT ON THE ARCTIC, AFRICA AND THE SDGs.


Dr. Musa er erkibiskup Lútersku Kristskirkjunnar í Nígeríu (LCCN), og forseti Lúterska Heimssambandsins (LWF). Hann heimsækir Ísland í boði Þjóðkirkjunnar og Ólafs Ragnars Grímssonar, formanns Hringborðs Norðurslóða, dagana 12. – 17. október næstkomandi.


Samtal um trú og umhverfi í Skálholti

Dr. Musa tekur þátt í samtali um trú og umhverfisvísindi í Skálholti þann 12. október.


Erkibiskup Nígeríu og Grænlandsbiskup í Hörpu

Dr. Musa verður einnig þátttakandi í málstofu á Hringborði Norðurslóða í Hörpu fimmtudaginn 13. október kl. 19:00. Þar bera biskupar frá Grænlandi, Íslandi og Nígeríu saman horfur í umhverfismálum á Norðurslóðum og í Afríku, í ljósi trúarviðhorfa og heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Ásamt Musa taka þátt í samræðunni Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti og Grænlandsbiskup, Paneeraq Siegstad Munk. Paneeraq var vígð biskup á Grænlandi fyrir ári og þetta mun vera í fyrsta sinn sem grænlenskur biskup kemur við sögu Hringborðs Norðurslóða. Stjórnandi umræðunnar er dr. Arnfríður Guðmundsdóttir, en skipuleggjendur málstofunnar eru Þjóðkirkjan, Stofnun Sigurbjörns Einarssonar, Guðfræðistofnun og Guðfræði- og trúarbragðadeild HÍ.


Samtal Ólafs Ragnars og forseta LWF

Laugardaginn 15. Október kl. 17:00 heldur Dr. Musa erindi á allsherjarfundi Hringborðs norðurslóða um kristindóminn og viðhorf Afríkubúa og Lúterska heimssambandsins til loftslagsbreytinga. Að því loknu tekur Dr. Ólafur Ragnar Grímsson við spurningum úr sal til forseta LWF og ræðir við hann.


Alþjóðleg umhverfis og biskupamessa í Hallgrímskirkju

Sunnudaginn 16. október kl. 11:00 verður umhverfis- og biskupamessa í Hallgrímskirkju. Þar prédikar Dr. Musa, erkibiskup í Nígeríu og forseti Lúterska heimssambandsins, og með honum þjóna Paneeraq Siegstad Munk Grænlandsbiskup, Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands og Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti. Prestur Hallgrímskirkju er séra Irma Sjöfn Óskarsdóttir og organisti Björn Steinar Sólbergsson. Messan verður með alþjóðlegu sniði og í henni syngur Drengjakór Dómkirkjunnar í Herning á Jótlandi, sem er af góðu kunnur hér á landi.


Dr. Musa heldur opinn fyrirlestur í Neskirkju

Dr. Musa heldur opinn fyrirlestur í Neskirkju á samkomu sem stendur frá kl. 12:00 til kl. 14:00 mánudaginn 17. október. Samkoman er á vegum Guðfræðistofnunar og Guðfræði- og trúarbragðadeildar Háskóla Íslands.


Um Musa

Dr. Musa er baráttumaður með einfaldan lífsstíl. Musa, sem fæddur er árið 1960, var kjörinn erkibiskup í Nígeríu árið 2016 og árið þar á eftir forseti Lúterska heimssambandsins. Innan vébanda þess eru um 77 milljónir manna í 99 löndum. Erkibiskupinn er kunnur fyrir andóf sitt gegn ofbeldi í Nígeríu, stuðning við fátæka og jafnræði kynja. Hann leggur sig fra, um samtal milli fulltrúa ólíkra trúarbragða. Hann er þekktur fyrir einfaldan lífsstíl sem stingur í stúf við ríkmannlega lifnaðarhætti ýmissra þarlendra trúarleiðtoga.


Erkibiskupinn hefur tekið mjög sterklega til máls gegn neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga í heimalandi sínu, meðal annars eyðimerkurmyndun. Hann hefur notað prédikunarstólinn til þess að mótmæla ólöglegu skógarhöggi, brennslu kjarrlendis og notkun viðar til eldunar. Þess í stað mælir hann með skógrækt og eflingu fjölbreytni í landbúnaði. Ástandið í Nígeríu er víða mjög slæmt og þannig hefur til dæmis Tsjad-vatnið, sem veitir hundruð bændasamfélaga viðurværi, skroppið samanum 90% með hrikalegum afleiðingum.


Erkibiskupinn hefur beitt sér af krafti gegn nútíma þrælahaldi, mansali, kúgun og óréttlæti gagnvart þeim sem standa höllum fæti í afrískum samfélögum og gert sitt til þess að ljá þeim rödd og veita von í erfiðum aðstæðum og útbreiddu vonleysi.

Sérvaldar færslur
Nýjustu færslur
Safnið
Stikkorð
Samfélagsmiðlar
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page