Föstuinngangur, öskudagur og fastan

Sunnudagur í föstuinngangi er núna 27. febrúar og er þá messa í Skálholtsdómkirkju kl. 11. Í inngangi föstu eru bolludagur og sprengidagurinn (kjötkveðjuhátíðina okkar). Þá hefst fastan með öskudegi og verður kvöldmessa í Mosfellskirkju með sérstöku sniði og krossmarki á ennið með ösku.
Fyrsta sunnudaginn í föstu 6. mars verður föstumessa í Skálholtsdómkirkju kl. 11 og í Torfastaðakirkju kl. 14. Fastan er í sjö vikur og nefnist líka langafasta og verða messur með ýmsu sniði alla sunnudagana og yfirleitt bæði fyrir hádegi í Skálholti og eftir hádegi á annarri kirkju í Skálholtsprestakalli. Sólheimakirkja verður t.d. með skátamessu, sem fresta þurfti vegna veðurs um daginn, sunnudaginn 13. mars kl. 14.
Alla þessa sunnudaga á föstunni verður beðið sérstaklega fyrir íbúum Úkraínu og öðrum þeim sem líða fyrir skelfilega innrás í land nágranna okkar. Við minnumst þess að krossinn er tré lífsins og hann þekkir þjáninguna en býður líka líkn með þraut og alla sanna gleði lífsins.

Verið hjartanlega velkomin í þetta góða helgihald sem er sérstaklega gott fyrir líkama og sál í undirbúningi páskahátíðarinnar og komu vorsins. Við viljum öll vera í góðu messuformi í vor eftir langan kafla í messufalli og heimsfaraldri. Verður einstaklega gott að geta núna í fyrsta sinn í tvö ár stefnt að undirbúningi hátíðarmessunnar á páskum og dýptinni í kyrruviku þar sem áhersla er á kyrrðardaga, skírdag og föstudaginn langa. Það verður ótrúlegt ef okkur tekst að endurnýja reynsluna af því að vakna árdegis á páskadagsmorgni, bæði við sólarupprás á Þingvöllum og í Skálholtsdómkirkju með morgunkaffi á eftir. Allt er þetta gert til að minnast þeirrar gleði að Kristur er upprisinn og hann hefur sannarlega afmáð dauðann. Komum okkur í þetta form og komum saman í bæn og fyrirbæn fyrir þeim sem þurfa á því að halda víða um heim.