top of page

Biskupsfrúrnar á málþingi um Biskupsfrúr í Skálholti

Hátt í 100 manns kom saman á málþingi um Biskupsfrúrnar í Skálholti um helgina. Hildur Hákonardóttir rithöfundur og náttúruafl leiddi gesti í allan sannleikann um hvað er svona merkilegt við það að vera biskupsfrú, en hún gaf nýverið út 2 bækur með sama titli.Hildur lagðist í mikla rannsóknarvinnu við gerð bóka sinna en afskaplega lítið var til af upplýsingum um biskupsfrúrnar í Skálholti. Nú hefur verið breyting þar á og hefur Hildur sannarlega komið biskupsfrúnum á kortið.


Strax var ljóst að mikill áhugi var á málþinginu, en í upphafi var stefnt að því að halda það 8. mars sl á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, en fresta þurfti málþinginu tvisvar sinnum og að lokum var ákveðið að halda það 19. júní á kvenréttindadaginn. í upphafi var búist við um 30 manns en raunin varð sú að þátttakendur urðu nærri 100 talsins. Mjög góður andi myndaðist í kirkjunni en dagskráin var brotin upp meðtónlistaratriði sem Hilmar Örn og Jón Gnarr stýrðu. Sunginn var vikivakinn sem kyrjaður var á Hólum í Hjaltadal Marteini Einarssyni biskupi til háðungar þegar hann var þar í haldi. Megas samdi nýtt lag við vikivakann og var hann sunginn nokkrum sinnum og tóku gestir vel undir.


Hádegismaturinn var silungur með grænmeti og kartöflum og smjörsósu í anda biskupsfrúa fyrri alda. Eftir hádegið gafst gestum kostur á að fræðast um Skálholt, ýmist í gönguferð með Sr Kristjáni Björnssyni Vígslubiskupi, eða með því að skoða safnið í kjallara kirkjunnar með Hildi Hákonardóttur, eða fræðst um sögu staðarins með Herdísi Friðriksdóttur. Í lokin voru umræður sem Þórunn Erlu- og Valdimarsdóttir stýrði. María Guðrúnar og Ásgeirsdóttir og Unnur Jökulsdóttir komu með innlegg og gestum gafst kostur á að spyrja spurninga eða koma með eigin hugleiðingar um biskupsfrúr eða konur innan kirkjunnar í gegnum söguna.

Biskupshjónin í Skálholti þau sr Kristján Björnsson og Guðrún Helga Bjarnadóttir buðu öllum biskupsfrúm landsins að koma og mættu þær ásamt mökum sínum, þær Arndís Jóndóttir, Ebba Sigurðardóttir og Margrét Bóasdóttir sem voru í Skálholti, Margrét Sigtryggsdóttir sem var á Hólum og Kristín Guðjónsdóttir eiginkona Karl Sigurbjörnssonar fyrrv biskups Íslands. Það var fríður hópur sem stillti sér upp til myndatöku við Skálholtskirkju í blíðunni.


Ljósmyndir Leszek Nowakowski.

Sérvaldar færslur
Nýjustu færslur
Safnið
Stikkorð
Samfélagsmiðlar
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page