Bókagjöf til Skálholtsbiskupsstóls


Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, kom færandi hendi með veglega bókagjöf er hann dvaldi í Skálholti í liðnum mánuði. Bókin er latnesk messusöngsbók hinnar rómversk kaþólsku kirkju, Missale Romanum, gefin út í Róm 1942, í hátíðarútgáfu og með biblíutexta Vulgata. Í gjafabréfi Guðna Th. Jóhannessonar segir forseti Íslands: "Þessa messusöngsbók fékk amma mín, Margrét Thorlacius, að gjöf. Síðar var bókin í vörslu móðursystur minnar, Guðfinnu Thorlacius. Við andlát hennar komst hún í mínar hendur. Nú afhendi ég bókina Skálholtsbiskupsstóli til varðveislu." Bréfið er ritað á Bessastöðum 13. september 2021.

Vígslubiskup, sr. Kristján Björnsson, veitti bókagjöfinni viðtöku og var myndin tekin við biskupssetrið í Skálholti við þetta hátíðlega tækifæri. Fyrir hönd Skálholtsstaðar færir Skálholtsbiskup innilegar þakkir og biður Guð að blessa minningu þeirra Margrétar og Guðfinnu Thorlacius. Bókin verður varðveitt í Bókasafni Skálholts sem mun verða flutt úr kirkjuturninum í nýtt húsnæði í Skálholti í vetur yfir í Gestastofu Skálholtsstaðar. Bókin er einsog ómur af arfi fyrri alda er þessir sömu textar og þýðing var sungin í tíðarsöng og í messum frá upphafi biskupsstóls í Skálholti og allt til loka þjónustunnar á tíma herra Ögmundar Pálssonar árið 1540, fyrstu 500 ár kirkjunnar á Íslandi í lærdómi hennar og lofgjörð helgrar þjónustu.

Sérvaldar færslur
Nýjustu færslur
Safnið
Stikkorð
Samfélagsmiðlar
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square