Andlát sr. Egils Hallgrímssonar

Þær sorgarfréttir eru héðan úr Skálholti að sr. Egill Hallgrímsson, sóknarprestur okkar í Skálholtsprestakalli, er látinn 65 ára gamall. Útför hans verður gerð frá Skálholtsdómkirkju laugardaginn 26. júní kl. 13.
Egill var fæddur 11. júní 1955 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Hallgrímur Hafsteinn Egilsson, garðyrkjubóndi í Hveragerði, og Sigurlaug Guðmundsdóttir, húsfreyja í Hveragerði. Eftirlifandi eiginkona sr. Egils er Ólafía Sigurjónsdóttir hjúkrunarfræðingur og eiga þau tvö börn.
Sr. Egill varð stúdent frá Menntaskólanum í Harmahlíð 1976. Hann nam sálarfræði við Háskóla Íslands 1980-82 og lauk cand.theol. embættisprófi frá guðfræðideild Háskóla Íslands 23. febrúar 1991.
Hann var skipaður sóknarprestur í Skálholtsprestakalli í Árnesprófastsdæmi 1. janúar 1998 og gegndi þeirri köllun til dánardags. Hann var vígður í Dómkirkjunni í Reykjavík 12. maí 1991 til Skagastrandarprestakalls í Húnavatnsprófastsdæmi þar til hann var skipaður sóknarprestur í Skálholtsprestakalli. Áður en hann hlaut vígslu hafði hann verið starfsmaður í Dómkirkjunni í Reykjavík og verið þar kirkjuvörður og annast barnastarf. Áður var hann gæslumaður á Kleppsspítalanum, vaktmaður á meðferðarheimili SÁÁ að Sogni í Ölfusi og kennari við Grunnskólann á Bíldudal.
Með prestsþjónustunni hefur hann m.a. annast stundakennslu við Höfðaskóla á Skagaströnd, verið með námskeið um sorg barna á vegum Farskóla Norðurlands vestra og verið stundakennari við Reykholtsskóla í Biskupstungum.
Af öðrum trúnaðarstörfum sr. Egils má nefna að hann sat í stjórn Skógræktarfélags Skagastrandar til fjölda ára, í stjórn Kirkjumiðstöðvarinnar við Vestmannsvatn og var formaður áfengisvarnanefndar Höfðahrepps. Sr. Egill sat í stjórn Prestafélags hins forna Hólastiftis, í fulltrúaráði Hjálparstofnunar kirkjunnar, í stjórn Æskulýðssambands kirkjunnar í Hólastifti og í stjórn Collegium Musicum, samtaka um tónlistarstarf í Skálholti. Hann var einnig í stjórn Þorláksbúðafélagsins og vann ötullega í Ísleifsreglunni. Hann var félagi í Frímúrarreglunni á Íslandi um áratugaskeið.
Ég minnist hans sem nágrannaprests allt frá upphafi prestsþjónustu okkar og náins samstarfsmanns og vinar um áratugaskeið. Hann var einstakur í helgihaldi sínu og þjónustu, söngmaður góður og hafði góða rödd og tilfinningu fyrir dómkirkjunni. Áður fyrr hefði hann verið talinn messuharður og var verksílaginn og fús til allrar þjónustu víða um land.
Skálholtsstaður og Þjóðkirkjan vottar Ólafíu og ástvinum hans virðingu og samúð á þessum sorgardögum og kveðjum góðan dreng sem á fagra og merka minningu í hjörtum okkar allra sem unnið hafa með honum og þekkt hann um lengri veg eða skemur og á mörgum eftirminnilegum stundum í lífinu.