top of page

Undirbúningur gengur vel fyrir Heimsráðstefnuna Skálholt 2, "Faith for Nature: Multi-Faith Acti


Undirbúningur gengur vel fyrir heimsráðstefnuna Skálholt 2, "Faith for Nature: Multi-Faith Action", sem verður í Skálholti 5.-8. október nk. Hún er haldin í stöðvum út frá Skálholti í 5 heimsálfum með um 500 þátttakendum. Hér er ljósleiðarinn á leiðinni og heima er verið að tengja húsin saman þannig að hægt verði að vinna ráðstefnuna á vefnum með gagnvirkri þátttöku, ávörpum og ályktunum. Um leið er dregið úr ferðalögum. Heima er einnig verið að setja upp nýjar hleðslustöðvar fyrir rafmagnsbílana sem koma til Skálholts.

Unnið verður í hópum í Bangkok, Nairobi, Genf, New York og Sao Paulo samtímis og hér er slóðin á ráðstefnuna fyrir þau sem vilja taka þátt í þessu verkefni með því að sýna því áhuga og fylgjast með framvindunni:

www.faithfornature.org

Á loftslagsráðstefnunni í Skálholti í október á síðasta ári, sem var haldin sem ein af for-ráðstefnum fyrir Arctic Circle Assembly 2019, hófst það ferli sem nú er að komast á alveg nýtt stig. Það er því litið á þessar tvær ráðstefnur í Skálholti sem þátt í því ferli að sameina öll helstu trúarbrögð heimsins með Landgræðslu og Landvernd í eina hreyfingu til að breyta uggvænlegri þróun í þeirri hamfarahlýnun jarðar sem við stöndum öll frammi fyrir saman. Samþykktirnar frá Skálholti í fyrra urðu til að efla mjög gott samstarf Umhverfisstofnunar Sameinuð þjóðanna UNEP og umhverfisráðuneytis á Íslandi og á hinum Norðurlöndunum. Nú er stefnt að þeim árangri að frá ráðstefnunni "Faith for Nature: Multi-Faith Action" geti umhverfisráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, flutt ályktun á umhverfisþingi Sameinuðu þjóðanna sem verður haldið í febrúar 2021 og flutt þar mikilvæga stefnumörkun fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands og Norðurlandanna allra. Stefnan er að sýna samtakamátt allra sem hafa trú á framtíðinni með von um endurheimt þeirra gæða sem skila þarf til næstu kynslóða.

Með þessari ráðstefnu í Skálholti og með þeirri miklu samskiptatækni sem notuð verður til fundarhaldanna er vonast til að sjálf ráðstefnan marki tímamót í því að halda kolefnislosun í lágmarki í baráttunni sjálfri og koma upp nýjum viðmiðunum á leið okkar til að draga úr hlýnun jarðar og jafna aftur ónáttúrulega hlýnun andrúmsloftsins og súrnun sjávar áður en það verður um seinan.

Með samstarfi landverndarsamtaka og trúarhreyfinga er vonast til þess að hægt verði að umbreyta viðhorfi okkar og daglegri breytni en það er forsenda þess að hægt verði að snúa þessari þróun við. Vísindafólk hefur lagt allar staðreyndir á borð og við vitum að verði ekkert að gert mun hlýnun jarðar leiða miklar hörmungar yfir þau samfélög sem standa höllum fæti í dag og eru frumbyggjar þar verst settir.

Með því að ná fullum samtakamætti allra helstu trúarbragða er verið að höfða til viðhorfsbreytinga og lífsafstöðu næstum allra jarðarbúa. Í dag er talið að meira en 80% jarðabúa tilheyri trúarhreyfingum. Það er nógu mikill fjöldi til að breyta öllu til velferðar mannkyns og náttúrunnar í heild. Með því að höfða til þátttöku trúarhreyfinga er einnig verið að virkja þá von og framtíðarsýn sem felst í boðun flestra trúabragða. Heiti ráðstefnunnar í Skálholti, "Faith for Nature: Multi-Faith Action" er í samræmi við það að við höfum trú á því að það verði hægt að takast á við þessa ógn. Og ef hiemsfaraldur Covid19 veirunnar hefur kennt okkur eitthvað er það að við styrkjum von allra með réttum viðbrögðum og tiltrú á að aðferðirnar og aðgerðirnar muni skila árangri.

Hér í fréttinni er mynd af merki ráðstefnunnar og má sjá líkindi með listgleri Gerðar Helgadóttur í Skálholtskirkju og þar með listgleri í öllum helgidómum heimsins þar sem steindir gluggar eru á annað borð notaðir til að dýpka trúarskilninginn. Listgler merkir að við eigum að láta æðra ljós lýsa í gegnum okkur, orð okkar og verk. En í þessum glugga er ekki sótt sérstaklega í lit og form Gerðar nema að hún notar mikið sexhyrninginn sem táknar sköpunina alla og sköpunarkraftinn í veröldinni. Litirnir eru litirnir úr merki Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna sem við erum væntanlega öll að keppa að á öllum sviðum lífsins.

Sérvaldar færslur
Nýjustu færslur
Safnið
Stikkorð
Samfélagsmiðlar
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page