Opin kirkja, nýlagðar tröppur og aðrar framkvæmdir

Steinsmiðirnir og píparinn hafa lokið við fyrsta áfanga í endurnýjun á kirkjutröppunum í Skálholti. Það var sannarlega kominn tími á það og núna er kirkjan opin um aðaldyrnar aftur. Opið er daglega milli 9 og 18. Bætt var við hitalögnina svo þær nái að bræða betur af sér og svo var steinninn lagður í mun betri múr en áður. Þetta er til mikilla bóta. Verkið allt er frekar kostnaðarsamt og það var ákveðið að skipta því milli ára. Þótti líka skynsamlegt að taka þennan pall og þrep og rampinn sem verst var farið og sjá hvernig hann kemur undan vetri áður en haldið verður áfram. Þá verða tröppurnar niður á bílastæði teknar í þeim tveimur áföngum sem skilur að með pallinum á þeim miðjum.
Af öðrum framkvæmdum er það að frétta að endurnýjun á þaki kirkjunnar er í undirbúningsferli og verður trúlega mest um dáðir á næsta ári, þakskipting, endurnýjun turnglugganna og múr- og málningarvinna. Þangað til á bráðabirgðaviðgerð á versta lekanum að halda. Í Skálholtsskóla er lokið endurnýjun á herbergjum í gamla hlutanum og ný gluggatjöld eru á leiðinni. Þá er lokið við hleðslu á torfgarði umhverfis kirkjuna að austan og sunnanverðu og senn verður farið í viðgerð á undirganginum og uppsetningu nýrra upplýsingaskilta við minjasvæðið. Á næstu dögum kemur líka verktakinn sem setur upp hleðslustöðvar fyrir rafknúna bíla og koma fjórar stöðvar upp í fyrsta áfanga. Unnið er áfram að undirbúningi fyrir flutning bókasafnsins úr turni kirkjunnar í kjallara Gestastofunnar og hönnun er á lokastigi fyrir fyrsta áfanga að inngangi og almenningssnyrtingum í Gestastofunni líka. Þá er enn verið að leita að verktaka til að leggja stíga og hellur í Þorláksleið um biskupstraðir en fyrsti hluti hennar verður þó lagður í næstu viku til að opna leiðina frá Skálholtsbúðum og niður að Stekkatúni við Hvítá og yfir að Þorlákshver við Brúará. Það er tveggja ára verkefni.