Tilfærsla/Displacement. Róm í Skálholti. Útilistaverk Rósu Gísladóttur


Tilfærsla, Róm í Skálholt er sýning á útilistaverkum Rósu Gísladóttur sem verður formlega opnuð á Skálholtshátíð, laugardaginn 18. júlí kl. 11.30.

Á sýningunni Tilfærsla / Displacement – Róm í Skálholti eru stór geómetrísk og samhverf form úr hvítu gifsefni (Jesmonite) og verkið Spegill tímans, hringsjá úr endurunnu áli sem speglar umhverfið. Öll vísa verkin til umhverfisins á Keisaratorgunum í Róm sem er merkasti fornminjagarður Evrópu. Verkin hafa áður verið sýnd á Íslandi, í Hörpu sumarið 2013, Tilfærsla / Displacement – Róm / Reykjavík, og í Listasafni Árnesinga sama ár, Skúlptúr – Rósa Gísladóttir. Eggert Gunnarsson gerði heimildarmynd um sýninguna í Róm í samstarfi við RÚV og var hún endursýnd í sjónvarpinu 10. júní 2020.

Um sýninguna segir dr. Pétur Pétursson, prófessor, í kynningarbæklingi:

"Þegar gesti ber að garði á Skálholtshátíð rekur þá í rogastans. Þeir gætu haldið að stórar hvítar marmarablokkir hefðu fallið af himni til þess að tigna eina íslenska dýrlinginn, Þorlák biskup helga, en Skálholtshátíð er jafnan haldin á Þorláksmessu á sumri.

Skálholtsdómkirkja er eins og Pétursskirkjan í Róm helguð Pétri postula sem leið píslarvættisdauða í Róm árið 64. Rómverjar drógu að steinblokkir og marmara hvaðanæva að úr ríki sínu til að nota í byggingar, hof og hallir og síðar kirkjur. Sagt er að steinblokkir úr musteri gyðinga í Jerúsalem, sem rómverskur her lagði í rúst árið 70, hafi verð notaðar til að byggja hringleikahúsið Colosseum í Róm. Gissur Ísleifsson, sá sem lagði grunninn að biskupsstól í Skálholti með gjöf sinni, hefur barið þessar byggingar augum á pílagrímsferð til borgarinnar eilífu við Tíberfljót; Péturskirkjuna, sem Konstantínus keisari lét byggja, og egypsku obeliskuna á torginu fyrir framan hana, Panþeon, Forum Romanum og Jóhannesarkirkjuna við Lateranhöllina svo eitthvað sé nefnt.

Árið 2012 hélt Rósa Gísladóttir sýningu í Róm á stórum hvítum skúlptúrum sem skírskota til fornra rómverskra og grískra forma. Sýningin var haldin í hálfhrundri byggingu, Trajanusarmarkaði, sem breytt hefur verið í listasafn og er staðsett við tröppurnar sem liggja frá Piazza Venezia að Angelicum, háskóla Dóminikareglunnar. Nú hefur þessi sýning verið flutt í Skálholt og á það vel við vegna þass að biskupsstóllinn í Skálholti skapaði beina tengingu við Róm gegnum biskupinn (páfann) í þeirri borg en páfinn var í raun eftirmaður hinna kristnu Rómarkeisara eftir að Vesturrómverska keisaradæmið féll á 5. öld."

Sérvaldar færslur
Nýjustu færslur
Safnið
Stikkorð
Samfélagsmiðlar
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square