Pílagrímagöngur til Skálholtshátíðar frá Bæ, úr Kjós, frá Þingvöllum og Bræðratungukirkju


Gengið er frá nokkrum stöðum í pílagrímagöngum til Skálholtshátíðar 2020. Lengsta gangan er frá Bæ í Borgarfirði og er hún komin í náttastað á Bjarteyjarsandi í Hvalfirði. Sr. Elínborg Sturludóttir leiðir þessa göngu með meira en tíu pílagrímum. Gengið var í dag frá Reynivöllum í Kjós og leiðir sr. Arna Grétarsdóttir þá göngu með sjö manns. Þessar göngur sameinast í árlegri pílagrímagöngu frá Þingvöllum til Skálholts. Sú leið er undir leiðsögn sr. Elínborgar Sturludóttur og Huldu Guðmundsdóttur og verður tekin í tveimur áföngum. Fyrri dagurinn, laugardagur 18. júlí, er frá Þingvöllum með fararblessun Skálholtsbiskups í Þingvallakirkju kl. 9, og gengið að Neðra Apavatni. Seinni hlutinn er farinn sunnudagsmorguninn 19. júlí frá Neðra Apavatni að Skálholti og er farið norðan Mosfells.

Þriðja pílagrímagangan er frá Bræðratungukirkju og verður að þessu sinni gengið sérstaklega til minningar um Ragnheiði Brynjólfsdóttur, Ragnheiðarleið. Á þeirri leið verður göngufólkið ferjað yfir Tungufljót með aðstoð Björgunarsveitarinnar á Flúðum. Þessi ganga hefst að morgni sunnudagsins 19. júlí kl. 9. Leiðsögumaður hennar er sr. Dagur Fannar Magnússon.

Komið er heim í Skálholt í hádeginu eða mátulega fyrir messuna sem hefst kl. 14. Í upphafi hátíðarmessunnar er sérstök athöfn til að fagna komu pílagrímanna og minnast skírnarinnar.

Pílagrímagöngur eru sérstakar vegna tilefnis og íhugunar og vegna þess að á öllum pílagrímaleiðum er stefnt heim að helgum stað. Á öllum pílagrímaleiðum eru svokallaðar feginsbrekkur en það er sá staður á leiðinni þar sem fyrst sést heim til hins helga staðar. Á leiðinni frá Þingvöllum er það á brekkunni fyrir ofan Laugavatn og heitir þar einmitt Feginsbrekka.

Gott er að skrá sig til þátttöku og er það á sérstakri skráningarsíðu hér á viðburðasíðunni, litlur neðan við þessar fréttir.

Ljósmyndin er eftir Pál M. Skúlason á Selfossi

Sérvaldar færslur
Nýjustu færslur
Safnið
Stikkorð
Samfélagsmiðlar
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square