Söguganga á hluta Þorláksleiðar, vöfflur á undan og kótilettur í kvöldmat


Það var gaman að njóta góðrar þáttöku 40 manns í fyrstu sögugöngu sumarsins á hluta Þorláksleiðar. Gengið var frá Virkishól, að leiði Ragnheiðar Brynjólfsdóttur og fjölskyldu, í Þorláksbúð, að Staupasteini, í Prenthús Þórðar biskups Þorlákssonar, að Fjósakeldunni, Þorláksbrunni, Kyndluhól, smiðjunni, Oddsstofu Gottskálssonar í Skálholtsbúðum og uppá Skólaveg að þeim stað þar sem Búnaðarskólinn átti að rísa sunnan og austan við Borgarhóla.

Þau allra hröðustu gengu auk þess að Þorlákshver. Fyrir gönguna var safnast saman í Skálholtsskóla í vöfflur klukkan þrjú og eftir gönguna var kvöldverður klukkan hálf sjö með kótilettum og tertu í eftirrétt. Einn þátttakenda var Páll M. Skúlason sem tók þessar myndir og var svo vinsamlegur að lofa okkur að setja inn hlekk á myndasíðu sína á flikkrinu:

https://flic.kr/s/aHsmPaF2Ze

Leiðsögumaður að þessu sinni var vígslubiskup sr. Kristján Björnsson. Þorláksleiðin var gengin að hluta en heita má að hópurinn hafi komið inná Þorláksleið við Þorláksbúð og fylgt henni niður Vestari biskupstraðir og að Skálholtsbúðum en þessi kafli leiðarinnar verður á framkvæmdaáætlun á næsta ári samkvæmt samningi Skálholts við Framkvæmdasjóð ferðamannastaða sem veitti veglegan styrk til verkefnisins í vor.

Þorláksleið í heild liggur frá Þorlákssæti sem er austan við minnisvarða um herra Jón Arason og syni hans tvo og að Þorláksbúð og á þeirri leið sem gengin var í gær en heldur síðan áfram frá Skálholtsbúðum í suður og SA að Torfholti og Stekkatúni og þaðan um Bolhaus og Hverhólma en endar við Þorlákshver.

Á leiðinni eru æði mörg örnefni og minjastaðir, sýnirlegar fornminjar og söguríkir staðir í landi Skálholts.

Sérvaldar færslur
Nýjustu færslur
Safnið
Stikkorð
Samfélagsmiðlar
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square