Nýr söfnunarsími fyrir ný styktarverkefni Verndarsjóðs Skálholtskirkju er 907 1603


Verndarsjóður Skálholtsdómkirkju hefur stofnað nýja leið til að safna styrktarfé fyrir þau verkefni sem núna eru framundan hjá sjóðnum eftir að stóra söfnunin fyrir listgluggum Gerðar Helgadóttur er lokið á þakkarverðan hátt. Er það söfnunarsími sem virkar þannig að föst upphæð leggst inná reikning sjóðsins þegar hringt er í númerið en símafyrirtækið Vodafone gefur allan kostnað. Í hvert sinn sem hringt er í númerið leggjast kr. 2.000,- inná reikning Verndarsjóðsins.

Verndarsjóðurinn er afar þakklátur fyrir mjög góðar undirtektir við fyrri söfnunina en samtals söfnuðust um 36 milljónir til endurbóta á listgluggum Gerðar Helgadóttur og altarismynd Nínu Tryggvadóttur. Verkefnin sem safnað er fyrir núna eru öll mjög mikilvæg og hvert um sig bæði menningarleg og í samræmi við markmiði Verndarsjóðsins. Það eru flutningur bókasafnsins, endurbætur á klukkum og klukkuverki kirkjunnar og endurnýjun á lýsingu helgidómsins.

Með góðum framlögum margra vill Verndarsjóðurinn kosta flutning á merkilegu og verðmætu bókasafni Skálholts sem verið hefur í slæmum geymslum í turni kirkunnar. Síðast í vor var öryggi safnsins ógnað með miklum þaklega í turninum. Kirkjuráð hefur ákveðið að kosta endurbætur á turni og þaki kirkjunnar en við þær framkvæmdir þarf að koma safninu í skjól og í betra húsnæði á staðnum. Verndarsjóðurinn hefur hug á því að kosta flutninginn, verkefnastjórn og nýja skápa á nýjum stað. Ákveðið er að safnið verði sett upp á neðstu hæð í gamla rektors- og biskupshúsinu sem núna er orðin að Gestastofu. Með góðum skápum og sýningar- og vinnuaðstöðu verður hægt að gera safnið aðgengilegt og opið að hluta svo loksins verði hægt að njóta þess hvað það hefur að geyma af dýrgripum úr prentsögu Íslands. Þá verður það skráð í Gegni og verður aðgengilegt þannig líka.

Í júlí koma sérfræðingar frá Danmörku til að skoða ástandið á kirkjuklukkunum. Þá verður gerð áætlun um endurbætur á mótorum og hringibúnaði auk þess sem metið verður hvort það svarar kostnaði að laga dönsku klukkuna sem féll niður af ramböltunum um árið eða láta steypa aðra nýja eftir þeirri sem gefin hafði verið af dönskum vinum. Núna hringja aðeins þrjár af fimm klukkum þar sem sú danska er brotin og mótor norsku klukkunnar er bilaður. Eftir eru tvær sænskar klukkur og ein finnsk. Allt voru þetta gjafir frá vinum okkar á Norðurlöndum í tilefni að byggingu og vígslu núverandi dómkirkju 1963. Þá verður einnig skoðað hvort við getum tengt litla mótora við tvær eldri klukkur sem geymdar eru á klukkuloftinu en þær eru báðar frá 1726.

Þriðja verkefnið er lýsing kirkjunnar sem þarf að endurnýja núna í ljósi þess að verið er að fara í miklar endurbætur á kirkjubyggingunni sjálfri. Helst þarf að vinna að þessu verki áður en málað verður að innan en það verður gert eftir að þakviðgerðin hefur verið kláruð. Þetta lýsingarverkefni er unnið í samráði við sérfræðinga í húsafriðun, stjórn Skálholts og söfnuðinn sjálfan. Komin er frumhönnun á nýrri gerð ljósa þar sem lögð verður áhersla á óbeina lýsingu sem nái fram betri lýsingu á listaverk kirkjunnar og innréttingar en ekki síður til að lyfta arkítektúr kirkjunnar og helgi guðshússins. Sjálfur helgidómurinn hefur ekki notið sín sem skyldi með hinni gömlu lýsingu sem auk þess er úr sér gengin með glóðaperum sínum.

Sérvaldar færslur
Nýjustu færslur
Safnið
Stikkorð
Samfélagsmiðlar
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square