top of page

Minningartónleikar um Jaap Schröder

Haldnir voru minningartónleikar um fiðluleikarann, frumkvöðulinn og stofnanda Skálholtskvartettsins, Jaap Schröder, laugardaginn 13. júní. Jaap lést 1. janúar síðastliðinn. Hann var einn helsti upphafsmaður upprunamiðaðs futnings í heiminum um miðbik 20. aldar. Ferill hans spannaði um 70 ár. Í ljósi áhrifa hans á tónlistarlífið hér á landi ákváðu félagar hans í Skálholtskvartettinum að heiðra minningu hans með tónleikum sem fram fóru í Skálholtsdómkirkju. Það voru fyrstu tónleikar sem haldnir voru í kirkjunni eftir samkomubannið vegna Kórónuveirunnar og voru um 80 manns viðstaddir.

Skálholtskvartettinn var skipaður tónlistarmönnum sem tóku í mörg ár þátt í starfi Bachsveitarinnar í Skálholti og Sumartónleikum í Skáholtskirkju. Kvartettinn einbeitti sér að flutningi verka klassíska og rómantíska tímabilsins með hljóðfærum og í stíl þess tíma. Hópurinn hóf að leika saman sem kvartett árið 1996 þegar hann lék Sjö orð Krists á krossinum eftir Haydn á Skálholtshátíð. Fljótlega fór kvartettinn að gera víðreist um Evrópu á milli þess sem hann hittist í Skálholti. Árið 2004 var kvartettinum boðið að leika á árlegri Haydn hátíð í hinni mikilfenglegu Esterhazy höll í Ungverjalandi. Þar flutti kvartettinn einnig Sjö orð Krists á krossinum í nálægri kirkju þar sem Haydn hafði starfað sem organisti meðfram starfi sínu hjá Esterhazy hirðinni. Árið 2006 hélt kvartettinn fyrstu tónleika sína í Amsterdam og fór síðan í margar tónleikaferðir til Hollands, Frakklands, Ítalíu, Spánar og Bandaríkjanna. Árið 2010 hóf kvartettinn að hljóðrita strengjaverk Schuberts fyrir bandaríska útgáfufyrirtækið Musica Omnia; strengjakvintettinn í C-dúr með fulltingi franska sellóleikarans Brunos Cocset og í kjölfarið sex helstu strengjakvartetta Schuberts.

Skálholtskvartettinn skipuðu Jaap Schröder og Rut Ingólfsdóttir, fiðluleikarar, Svava Bernharðsdóttir víóluleikari og Sigurður Halldórsson sellóleikari. Á þessum tónleikum lék Hildigunnur Halldórsdóttir með kvartettinum. Hún lék oftast með Bachsveitinni í Skálholti þegar Jaap stýrði henni og tók gjarnan þátt í tónleikum Skálholtskvartettsins þegar farið var út fyrir hefðbundna hljóðfæraskipan. Hún stjórnaði auk þess nokkrum sinnum hljóðritunum kvartettsins.

Jaap Schröder kom fyrst til Íslands árið 1993, leiddi Bachsveitina á Sumartónleikum í Skálholti í rúman áratug, stofnaði Skálholtskvartettinn og hélt fyrirlestra og námskeið í barokktúlkun og flutningstækni. Hann var sérfræðingur í fiðlubókmenntum 17., 18. og 19. aldar og frumkvöðull þeirrar tónlistar með upprunalegum hljóðfærum. Jaap kenndi í Basel í Sviss og við Yale háskólann og var heiðursprófessor við Smithson stofnunina í Bandaríkjunum. Eftir hann liggja ótal hljóðritanir bæði í Ameríku og Evrópu, m.a. níu geisladiskar útgefnir af Smekkleysu. Árið 2006, á 950 ára afmæli biskupsstólsins í Skálholti, gaf hann stóran hluta tónlistarbóka- og nótnasafns síns til Skálholts. Árið 2001 hlaut Jaap Schröder hina íslensku fálkaorðu. Nánar er fjallað um starf Jaaps Schröder á Íslandi í grein Sigurðar Halldórssonar í Þráðum, vefriti tónlistardeildar Listaháskólans sem kom út í mars síðastliðnum: Jaap Schröder og tengsl hans við Ísland. https://www.lhi.is/tolublad-5-jaap-schroder-og-tengsl-hans-vid-island

Efnisskrá tónleikanna var: Joseph Haydn (1732 - 1809): Strengjakvartettar op. 51, Sjö orð Krists á krossinum 1. Introduction, Maestoso ed Adagio Pater, dimitte illis;non enim sciunt, quid faciunt, Largo 2. Amen dico tibi: hodie mecum eris in paradiso, Grave et cantabile 3. Mulier, ecce filius tuus, et tu, ecce mater tua! Grave 4. Eli, Eli, lama asabthani? Largo 5.Sitio, Adagio 6. Consumatus est, Lento 7. Pater, in tuas manus commendo spiritum meum, Largo Il Terremoto, Presto e con tutta la forza.

Flytjendur voru: Rut Ingólfsdóttir og Hildigunnur Halldórsdóttir, fiðlur, Svava Bernharðsdóttir, víóla, og Sigurður Halldórsson, selló.

Tekið er við frjálsum framlögum sem verður varið til að standa að útgáfu á óútgefnum hljóðritunum Jaaps með Skálholtskvartettinum og Bachsveitinni í Skálholti. Eftir tveggja áratuga starf Jaaps hér á landi liggja eftir óútgefin hljóðrit sem rúmast á um sex geisladiskum. Má þar nefna strengjakvartetta og tríó eftir Schubert, Haydn bæður og Boccherini, ítalska sautjándu aldar strengjatónlistar og Stabat mater eftir Boccherini. Hægt er að leggja fjárhæð að eigin vali inn á eftirtalinn bankareikning: 0123-15-009846 - Kennitala: 130163 2709.

Myndirnar frá minningartónleikunum eru teknar af Birni Bjarnasyni, fv. ráðherra.

Sérvaldar færslur
Nýjustu færslur
Safnið
Stikkorð
Samfélagsmiðlar
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page