top of page

Sumartónleikar í Skálholti 2020 og staðartónskáldin Þóranna og Gunnar Karel

Sumartónleikarnir í Skálholti munu fara fram 2.-12. júlí en tónleikarnir munu fara fram frá fimmtudegi til sunnudags báðar vikur. Að sjálfsögðu munu stjórnendur fara eftir þeim reglum sem verða í gildi á þessum tíma. Stjórnendur Sumartónleikanna eru Ásbjörg Jónsdóttir og Birgit Djupedal: "Það hefur verið gaman að fylgjast með listamönnum finna nýjar leiðir til að miðla list sinni á þessum síðustu vikum og höfum við út frá því sett upp plan fyrir Sumartónleika: Tónleikarnir munu fara fram í Skálholtskirkju með tónleikagestum. Sætaröðun og fjöldatakmörkun verður samkvæmt gildandi reglum. Þá verður hægt að tryggja sér sæti fyrirfram til þess að fara ekki fýluferð í Skálholt. Eða: Tónleikunum verður streymt á netið svo þið getið notið úr öruggri fjarlægð. Við munum fylgjast með stöðunni og kynna breytingar á heimasíðunni okkar og á samfélagsmiðlum."

Staðartónskáld Sumartónleika 2020 eru Þóranna Björnsdóttir og Gunnar Karel Másson. Verk eftir staðartónskáldin okkar í ár verða flutt á opnunartónleikunum 2. júlí og á lokatónleikunum 12. júlí. Þóranna og Gunnar hafa bæði unnið mikið í raftónlistarheiminum en hafa einnig reynslu af því að semja kammertónlist. Þau munu dvelja í Skálholti við tónsmíðar og munu verkin þeirra tengjast Skálholti og Sumartónleikum. Þau munu vinna náið með ungu og upprennandi tónlistarfólki sem skipa tríóið KIMI.

Á Sumartónleikum hafa verið frumflutt hátt í 200 verk og á hverju sumri frá árinu 1986 hafa verið eitt eða fleiri staðartónskáld. Það ár pantaði Helga Ingólfsdóttir stofnandi Sumartónleika verk eftir Jón Nordal fyrir Hljómeyki og samdi hann þá verkið Aldasöng sem verður einmitt fluttur nú í sumar (nánari upplýsingar síðar!).

Sumartónleikar í Skálholti hafa verið starfandi frá árinu 1975 og staðið fyrir tónleikahaldi í Skálholtskirkju í 5 – 6 vikur á hverju sumri. Hátíðin er sú elsta og jafnframt stærsta sinnar tegundar á landinu og einn stærsti menningarviðburður sem fram fer á Suðurlandi yfir sumartímann. Á hverju sumri sækja á þriðja þúsund manns Sumartónleikana.

Eitt helsta markmið Sumartónleika í Skálholti er að stuðla að nýsköpun íslenskrar tónlistar. Tónverkin sem frumflutt hafa verið á hátíðinni nálgast 200, og hafa flest helstu tónskáld Íslands komið þar við sögu. Margir af þekktustu tónlistarflytjendum þjóðarinnar hafa einnig komið að starfi Sumartónleikanna á starfsferli sínum, og fjölmargir virtir erlendir flytjendur hafa sótt Sumartónleika heim. Hátíðin hefur skapað sér sess sem mikilvæg tónlistarhátíð langt út fyrir landsteinana, sérstaklega hvað varðar flutning á tónlist 17. og 18. aldar.

Eitt af markmiðum Sumartónleikanna er að vera vettvangur fyrir hljóðfæraleik á upprunaleg hljóðfæri og er Bachsveitin í Skálholti meðal hópa sem hafa skipað fastan sess í tónleikahaldi Sumartónleikanna.

Hér er hlekkur og tenging á heimasíðu Sumartónleika 2020

Á þeirri síðu eru upplýsingar um alla flytjendur og nánari upplýsingar um staðartónskáldin. Hér er öll dagskráin. Mesta breytingin í ár er að núna eru tónleikarnir í tvær vikur en ekki fimm helgar. Þá má búast við breytingum sem leiða af þeim reglum sem verða á samkomuhaldi og pesónulegu rými í ljósi sóttvarna og almannavarna eftir því sem þessu léttir af og málin þróast í sumar.

Listræn stjórn og framkvæmdastjórn Sumartónleika í Skálholti 2020:

Ásbjörg Jónsdóttir og Birgit Djupedal

sumartonleikar.skalholt@gmail.com

Stjórn Sumartónleikanna í Skálholti skipa

Guðrún Birgisdóttir (formaður)

Elín Gunnlausgdóttir

Margrét Bóasdóttir

Sérvaldar færslur
Nýjustu færslur
Safnið
Stikkorð
Samfélagsmiðlar
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
bottom of page