Skálholtshátíð 18. - 19. júlí helguð myndlist og tíðindum af minjasögu

Á næstu misserum verða gefnar út nokkrar bækur sem varða Skálholt, sögu og minjar. Þar munu niðurstöður úr forleifarannsóknum verða gefnar út í þriggja binda verki auk fleiri rita um minjar og sögu. Er þar margt sem varpar nýju ljósi á líf og menningu fyrri alda í ljósi sögu og minja í Skálholti. Til að opna þessa sögu verður boðið uppá sögugöngu um heimatorfuna og hluta Þorláksleiðar sem unnið verður að í sumar á næsta sumar. Dagskráin er hér fyrir neðan.
Þá verða í Skálholti tvær sýningar á Skálholtshátíð. Önnur er höggmyndasýning Rósu Gísladóttur og verður hún að mestu utandyra. Hin sýningin er samsýning tólf listamanna á sal í Skálholtsskóla. Hér á síðunni verður greint betur frá hverjum þætti hátíðarinnar fyrir sig en dagskráin hefst með kvöldbæn föstudagskvöldið 17. júlí og svo er hún formlega sett með útimessu við Þorlákssæti laugardagsmorguninn 18. júlí. Söguganga verður eftir hádegi föstudaginn 17. júlí, útidagskrá verður eftir hádegi laugardaginn 18. júlí á fornminjasvæðinu og síðdegis á laugardag verða hátíðartónleikar. Orgeltónleikar eru sunnudagsmorguninn 19. júlí og hátíðarmessa verður kl. 14. Eftir kirkjukaffi er hátíðardagskrá kl. 16 með hátíðarávörpum, erindum, tónlist og fréttum af staðnum.
Ákveðið var að fresta öllum atriðum sem byggja á komu erlendra gesta til næsta sumars í ljósi ákveðinnar óvissu sem búast má við eftir að Covid 19 virðist hafa gengið yfir þótt allir voni að heimsfaraldurinn hafi gengið yfir hér á landi. Á hátíðinni verður farið eftir öllum leiðbeiningum almannavarna og heilbrigðisyfirvalda bæði á samkomum og í matsal.
Dagskrá Skálholtshátíðar 2020:
Föstudagur 17. júlí. Söguganga um hluta Þorláksleiðar. Gangan hefst kl. 15 með miðdegiskaffi í Skálholtsskóla og lýkur með kvöldverði. Gengið er í 2 1/2 til þrjá tíma. Leiðsögumaður verður sr. Kristján Björnsson, Skálholtsbiskup. Skráning er undir Viðburðir hér á síðunni og þar eru upplýsingar um kostnað, gönguleið og búnað.
Kl. 21. eru kvöldbænir, vesper, í kirkjunni.
Laugardagur 18. júlí. Útimessa við Þorlákssæti kl. 11. Útidagskrá og leiðsögn um fornminjasvæðið undir leiðsögn fornleifafræðinganna Mjallar Snæsdóttur og Gavins Murray Lucas kl. 13 - 15. Tónleikar í Skálholtsdómkirkju kl. 16.
Sunnudagur 19. júlí. Orgeltónleikar í kirkjunni kl. 11 árdegis. Hátíðarguðsþjónusta kl. 14 og kirkjukaffi í skólanum. Sr. Kristján Björnsson prédikar og þjónar fyrir altari ásamt prestum, djáknum og leikmönnum.
Hátíðardagskrá í Skálholtsdómkirkju kl. 16. Hátíðarerindi flytur Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. Tónlistardagskrá með Skálholtskórnum og organista, Jóni Bjarnasyni. Erindi flytja fornleifafræðingarnir Mjöll Snæsdóttir og Gavin Murrey Lucas, prófessor við HÍ, og kynna þau m.a. nokkrar nýjar niðurstöður úr rannsóknunum 2002 - 2007 en núna er unnið að útgáfu á þeirri rannsókn. Biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir, flytur ávarp.
Mánudagur 20. júlí. Þorláksmessa á sumar. Morgunmessa kl. 9 árdegis í Skálholtsdómkirkju.
Hátíðargestir eru hvattir til að skrá sig eða tilkynna þátttöku í Skálholtsskóla í tölvupósti skalholt@skalholt.is eða síma 486 8870 hjá Hólmfríði.
Verið hjartanlega velkomin!