Veiðileyfi í Hvítá komin á veida.is

Núna er í fyrsta sinn hægt að leigja veiðileyfi í Hvítá fyrir landi Skálholts. Laxveiðitíminn er 24. júní til 24. september. Veiðileyfin eru seld á veida.is en heima í Skálholti er einnig í boði gisting og leiga á sumarhúsi með heitum potti auk tilboða í veitingasalnum í Skálholtsskóla. Vorveiði er einnig heimil fram til 8. júní en þá er gert hlé og áin hvíld meðan laxinn er að byrja að ganga.
Á vef veida.is segir um veiðisvæðið: "Hvítá í Árnessýslu er vanmetin veiðiá en um hana fer gríðarlegur fjöldi fiska ár hvert, bæði lax, sjóbirtingur og bleikja. Hvítá er með sjálfstæðan sterkan laxastofn, en einnig fer um ána lax sem er á leið uppí aðrar ár sem eru hluti af vatnakerfinu – ár eins og Tungufljót, Stóru Laxá, Brúará og Dalsá. Margir þekktir laxveiðistaðir eru í Hvítá og einnig aðrir minna þekktir, en ekki síður góðir.
Skálholtssvæðið í Hvítá er steinsnar fyrir neðan Hvítárbrú við Iðu. Skálholtssvæðið hefur verið í einkanýtingu í langan tíma en vitað er að veiðin hefur oft verið mjög góð á þessu svæði. Nú er Skálholtssvæðið komið í almenna sölu. Svæðið nær frá ósi Undapolls við svokallað Torfholt, nokkru neðan við Hvítárbrú við Laugarás, og niður alla Skálholtstungu, langleiðina niður að ármótum við Brúará. Veitt er með 2 stöngum á þessu svæði og eru þær stangir seldar saman í pakka – stakir dagar, veitt frá morgni til kvölds með hefðbundinni hvíld um miðjan dag."

Þá á bæta því við að í Torfholti (við efsta hluta veiðisvæðisins) eru minjar um forna veiðistöð sem segir okkur að þarna hefur alltaf verið góð veiði þótt við höfum ekki góða skráningu á veiðireynslu hin síðari ár. Mjög fallegir veiðistaðir eru einnig undir Stekkatúnsholtinu þar sem áður fyrr var stærsta býlið í landi Skálholts og talið gott með aðdrætti. Fyrri myndin hér er einmitt af árbakkanum undir Stekkatúni og gerast veiðistaðir varla fallegri. Á neðri myndinn er horft af syðsta hluta Torfholtsins niður með ánni og Skálholtstungu en Hestfjall í fjarska. Til gamans má geta þess að á þessum kafla og nálægt garði miklum frá því um 1200 fannst næla frá 10. öld og er það elsti minjagripur sem fundist hefur í Skálholti. Því hefur verið ákveðið að nefna einn veiðistaðinn Næla.
Á veiðivefnum segir áfram um þetta svæði: "Nokkir fallegir og álitlegir veiðistaðir eru á svæðinu en á meðan byggð er upp veiðireynsla og skráning í veiðidagbók er verði veiðileyfa haldið í lágmarki í sumar. Stangardagurinn í sumar er frá kr. 10.000 – 14.000. Einnig er boðið uppá vorveiði, fram til 9. júní. Stangardagurinn á þeim tíma er á kr. 7.500. Aðgengi að veiðistöðum er nokkuð gott, en nauðsynlegt er að vera á jeppa eða jepplingi til að geta ekið að ánni."

Þarna er einnig að finna ítarlega leiðarlýsingu og bókunarsíðu en varðandi sumarhús, gistingu og málsverði er gott að hafa samband við Skálholtsskóla í síma 486 8870 og á skalholt@skalholt.is