Veiðileyfi í Brúará komin á veida.is


Núna er í fyrsta sinn hægt að kaupa veiðileyfi í Brúará fyrir landi Skálholts á vefnum veida.is og eru þegar farin fyrstu veiðileyfin í maí. Brúará er önnur vatnsmesta bergvatnsá landsins, hún er lindá og vatnasvæðið um 700 km2, rennsli mjög jafnt eða um 67 rúmmetrar á sek. Lengd hennar er 44 km. Í landi Skálholts eru nokkrir heitir hverir í og við Brúará frá Þorlákshver að Litlahver en neðan hans er mjög fallegt og friðsælt veiðisvæði. Myndin horfir suður Brúará í átt að Litlahver og þaðan sést í bugðuna við Reykjanesbakka. Í fyrsta sinn hefur Skálholtsstaður allar tekjur af veiðinni og vill opna landið svo fleiri njóti friðsældar í náttúrunni. Jafnframt er í boði gisting í Skálholti og hægt að leigja sumarhús í Skálholtsbúðum, næst veiðistöðunum. Vegna tímabundinna þrengina í veirunni hefur opnun veitingasölu í Skálholti verið skert svo það þarf að panta máltíðir og aðrar veitingar með fyrirvara í síma 486 8870. Hægt er að fá málsverð heimssendan í Búðirnar.

Veiði í Brúará er stunduð frá nokkrum bæjum, lax og silungsveiði á stöng. Silungurinn er bæði sjógenginn og staðbundinn 0.5 til 2 kg að þyngd. Lax gengur einkum í ágúst og september.

Frekari leiðsögn um leiðir að ánni er veitt í Skálholtsskóla í síma 486 8870 og þar er einnig hægt að fá upplýsingar um gistingu og veitingar í Skálholti og Skálholtsbúðum. Einnig má hringja í sr. Kristján vegna leiðsagnar í síma 856 1592. Allgóð lýsing á aðkomunni og vegslóðum er á veida.is

Skálholtssvæðið í Brúará er lítið þekkt og ekki er mikil veiðireynsla skrásett af þessu svæði. Aðgengi að hluta svæðisins er gott, en ganga þarf nokkuð út frá þremur vegum til að ná að veiða allt svæðið. Veiðisvæðið tekur við af landi Spóastaða við Réttarholt að ofanverðu, suður með miklu mýrlendi í Mosum, meðfram hverasvæðinu og niður alla Skálholtstungu um Reykjanesbakka, Baulubakka og Vesturtjörn að Músanesi. Veiðimörk svæðisins eru nokkuð fyrir ofan ármótin við Hvítá, beint í vestur frá Músanesinu. Urriðinn á myndinni fékkst neðan við Litlahver, við Girðingu nánar tiltekið. Hann reyndist vera tvö og hálft pund og trúlega staðbundinn.

Bókaðir eru stakir dagar, 1-4 stangir. Leyfilegt agn er fluga, maðkur og spúnn. Leyfið gildir á landareign Skálholts, sem er á austurbakka árinnar.

Í framhaldi af þessari opnun á sölu veiðileyfa í Brúará verða einnig seld leyfi fyrir tvær stangir í Hvítá í landi Skálholts á veida.is. Það verður betur kynnt þegar að því kemur. Á myndinni hér að ofan er horft ofan úr Torfholti við Hvítá suður á Stekkatún og Sléttur en í fjarska er Hestfjall. Neðri myndin er við Hvítá.

Allar tekjur af sölu veiðileyfa renna til Skálholtsstaðar og verður það nýtt til rekstur á þjónustu og uppbyggingu staðarins en vegna lítillar skráðrar veiðireynslu verður verði stillt mjög í hóf. Í Skálholti er í boði gisting í skólanum eða í Skálholtsbúðum og sumarhúsum þar með heitum pottum en þaðan er einmitt mjög stutt í veiðileiðir.

Sérvaldar færslur
Nýjustu færslur
Safnið
Stikkorð
Samfélagsmiðlar
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square